Afhending trúnaðarbréfs í Eistlandi
Elín Flygenring sendiherra afhenti í dag, 19. febrúar, forseta Eistlands Toomas Hendrik Ilves trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Eistlandi. Sérstakur fundur sendiherra og forseta Eistlands var haldinn eftir afhendinguna. Áður hafði sendiherra átt fund með embættismönnum í utanríkisráðuneyti Eistlands.
Á fundunum kom fram mikið þakklæti Eistlendinga vegna stuðnings Íslendinga við sjálfstæðisbaráttu eistnesku þjóðarinnar. Einnig kom fram mikill og eindreginn stuðningur við aðildarumsókn Íslendinga að Evrópusambandinu en Eistlendingar bjóða fram aðstoð við aðildarviðræður Íslendinga. Eistlendingar leggja mikla áherslu á aukið svæðasamstarf norðlægra landa. Létu fundarmenn í ljós von um að efnahagskreppan á Íslandi myndi leysast hið fyrsta.
Menningarsamskipti Eistlands og Íslands hafa aukist jafnt og þétt að undanförnu. Tallinn verður menningarborg Evrópu á næsta ári og munu menningarsamskipti landanna verða enn líflegri í því sambandi. Nokkrar íslenskar bækur hafa verið þýddar á eistnesku.
Áhugi Eistlands á Íslandi er mikill og einnig hefur ferðáhugi aukist til muna en Eistlendingar notfæra sér í nokkrum mæli beint flug milli Helsinki og Reykjavíkur sem Icelandair skipuleggur stóran hluta ársins.