Unnið að margs konar endurskipulagningu opinberrar þjónustu
Átak til eflingar sveitarfélögum stendur nú yfir, skattstofur landsins verða sameinaðar í eina og ráðuneyti verða sameinuð. Þetta er meðal aðgerða sem nú er unnið að varðandi endurskipulagningu opinberrar þjónustu til að unnt sé að mæta minnkandi fjármunum ríkissjóðs í ár og á næstu árum.
Þetta var meðal þess sem fram kom á ráðstefnu fjármálaráðuneytisins, verkefnisins sóknaráætlun 20/20 og Stofnunar stjórnsýslufræða við HÍ sem haldin var fimmtudaginn 18. febrúar um endurskipulagningu opinberrar þjónustu. Nálega 150 manns sat ráðstefnuna. Í fyrri hluta dagskrárinnar voru flutt erindi um nauðsyn þess að ráðast í viðamiklar skipulagsbreytingar í opinberri þjónustu og síðari hlutinn var eins konar vinnustofa þar sem fundargestir settu fram hugmyndir sínar um möguleika til breytingar á sviði sameiningar ráðuneyta og stofnana eða í tengslum við eflingu sveitarstjórnarstigsins og aukins samstarfs um þjónustu ríkis og sveitarfélaga.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra ræddi í upphafi ráðstefnunnar um nauðsyn endurskipulagningar opinberrar þjónustu. Boðaði hann áframhaldandi niðurskurð ríkisútgjalda og sagði áætlanir gera ráð fyrir að skera þyrfti niður útgjöld um 50 milljarða á næsta ári, 30 milljarða árið 2012 og 20 milljarða árið 2013.
Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis, og Arnar Þór Másson frá fjármálaráðuneytinu fóru yfir helstu hugmyndir sem verið hafa verið til umræðu innan ráðuneyta um endurskipulagningu þjónustu hjá ríkinu og tengdu þær við aðrar áformaðar stjórnkerfisbreytingar. Kom fram í máli þeirra að fækka ætti ráðuneytum úr 12 í 9 með því að koma á fót atvinnumálaráðuneyti, innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti en tímasetningar í þessum efnum hefðu ekki verið afráðnar. Einnig var minnst á ýmsar sameiningarhugmyndir stofnana sem nú eru til umræðu eða afráðnar, svo sem sameining opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar og endurskipulagningu samgöngustofnana.
Sveitarstjórnarstigið eflt
Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, fór yfir áform um eflingu sveitarstjórnarstigsins, flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga og hvaða áhrif hann getur haft á skipulag opinberrar þjónustu. Í upphafi dró hún fram þýðingu og umfang sveitarstjórnarstigsins og hvernig það hefði verið að eflast undanfarin ár bæði með sameiningum og nýjum verkefnum. Ragnhildur sagði unnið að ýmsum aðgerðum til frekari eflingar sveitarfélaga í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Einnig greindi hún frá sameinuðu átaki sem unnið er nú að á vegum ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að kanna sameiningarkosti í hverjum landshluta í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga. Sagði hún ráðherra stefna að því að geta lagt málið fyrir Alþingi á komandi hausti.
Þá kynnti Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri vinnulag við nýlega sameiningu skattumdæma sem hann sagði að væri nú að koma til framkvæmda en sameina á allar skattstofur landsins í eina undir hatti ríkisskattstjóra.
Erindi Ragnhildar Hjaltadóttur ráðuneytisstjóra