Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2010 Dómsmálaráðuneytið

Drög að frumvörpum um breytingar á útlendingalögum lögð fram til kynningar

Lagastofnun Háskóla Íslands hefur að beiðni dómsmála- og mannréttindaráðherra samið frumvarp til breytinga á lögum um útlendinga sem miðar að því að auka vernd þeirra sem leita hælis hér á landi, og er það nú birt á vef ráðuneytisins til kynningar. Jafnframt er kynnt frumvarp um breytingar á útlendingalögum þar sem mælt er fyrir um tvo nýja flokka dvalarleyfa í samræmi við aðgerðaráætlun um mansal. Ráðgert er að leggja frumvörpin fyrir ríkisstjórn og þingflokka í endanlegum búningi innan þriggja vikna.

Bætt réttarstaða hælisleitenda

Frumvarp um bætta réttarstöðu hælisleitenda er samið í kjölfar úttektar nefndar um meðferð hælisumsókna, sem skilaði skýrslu til dómsmálaráðherra  í júlí á síðasta ári. Byggist frumvarpið á tillögum nefndarinnar, og tekur mið af þróun löggjafar í Evrópu. Eru helstu nýmælin þessi:
-    Aukin vernd þeirra sem ekki eru flóttamenn samkvæmt skilgreiningu alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 eða Flóttamannasamningsins, þannig að þeir fái nýja réttarstöðu í samræmi við alþjóðlegar mannréttindareglur (svokölluð viðbótarvernd).
-    Skýrari reglur um veitingu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
-    Skýrari reglur um meðferð hælisumsókna og réttarstöðu hælisleitenda.

Tveir nýir flokkar dvalarleyfa handa fórnarlömbum mansals

Í öðru frumvarpi er lagt til að tveimur nýjum ákvæðum um dvalarleyfi verði bætt við lög um útlendinga til hagsbóta fyrir fórnarlömb mansals. Annars vegar er um að ræða um tímabundið dvalarleyfi í sex mánuði sem Útlendingastofnun skal veita einstaklingi sé fyrir hendi grunur um að viðkomandi sé fórnarlamb mansals. Hins vegar er um að ræða ákvæði um að heimilt sé að veita fórnarlambi mansals endurnýjanlegt dvalarleyfi til eins árs vegna persónulegra aðstæðna þess og/eða vegna samvinnu við yfirvöld í tengslum við rannsókn eða við meðferð sakamáls.

Frumvörp til laga um breytingar á lögum nr. 96/2002, um útlendinga, með síðari breytingum: 

Drög að frumvarpi - hælismál (pdf-skjal)

Drög að frumvarpi - mansalsmál (pdf-skjal)

Skýrsla nefndar um meðferð hælisumsókna (pdf-skjal)


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum