Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2010 Matvælaráðuneytið

Nr. 12/2010 - Heimsókn sjávarútvegsráðherra til Bremen 21. - 22. febrúar 2010

Fiskmarkaður í Bremerhaven
Fiskmarkaður í Bremerhaven

Heimsókn sjávarútvegsráðherra til Bremen 21. – 22. febrúar
í tilefni sjávarútvegssýningarinnar Fish International 2010
og aðalfundar þýsk-íslenska viðskiptaráðsins

Málefni karfa hafa verið nokkuð til umræðu í Þýskalandi. Lagt hefur verið upp í herferð gegn karfa á mörkuðum og tók verslunarkeðjan Kaufland karfa úr vöruframboðið sínu. Gullkarfi (sebastes marinus), djúp- og úthafskarfi (sebastes mentella) voru settir á lista yfir fisk í útrýmingarhættu eða í það minnst settar fram spurningar um sjálfbærni veiðanna. Í framhaldi af þessu sendi ráðherra frá sér yfirlýsingu sem dreift var til söluaðila og sendiráðsins ásamt kynningarblaði með helstu atriðum er snerta veiði á karfa við Íslandsstrendur. Það er aðallega gullkarfi sem er að fara á markað í Þýskalandi en djúpkarfi einnig þó í minna mæli. Að mati Hafrannóknastofnunarinnar er hvorugur þessara stofna í útrýmingarhættu en veiðar á úthafskarfa eru allt annað en sjálvbærar vegna langvarandi milliríkjadeilna nágrannaþjóða.

Sendiráð Íslands í Berlín hefur lagt áherslu á að opinberir aðilar kynntu sjálfbærni í íslenskum fiskveiðum í Þýskalandi og væri sjávarútvegssýningin í Bremen tilvalið tækifæri til þess.

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra átti svo fundi með ýmsum þýskum aðilum í stjórnsýslu, verslun og í sjávarútvegi í tilefni af heimsókn sinni á sjávarútvegssýninguna í Bremen 21.-22. febrúar sl.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason og Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra Íslands í Þýskalandi voru heiðursgestir á sýningarsvæði Bremerhaven og ráðherra hélt þar stutt ávarp sem og í tengslum við aðalfund Þýsk-íslenska viðskiptaráðsins í móttöku sem haldin var í samstarfi við Petru Baader forstjóra Nordischer Maschinenbau Rud. Baader GmbH & Co. KG og stjórnarmanns í Þýsk- íslenska viðskiptaráðinu. Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar hélt fyrirlestur á málstofu um sjálfbærar fiskveiðar þar sem hann rakti málefni rannsóknir á íslenskum karfastofnum og ráðgjöf stofnunarinnar um veiðar.

Daginn eftir var fiskmarkaðurinn í Bremerhaven skoðaður en Íslendingar eiga þar í talverðum viðskiptum. Markaðurinn er í eigu feðganna Samúels Hreinssonar og Samúel Samúelssonar og fóru þeir feðgar yfir starfsemi markaðarins. Jafnframt sat ráðherra fund með formanni stjórnar Bremenhaven hafnar, Uwe Beckmeyer sem er jafnframt þingmaður og hefur oft reynst Íslendingum vel.

Að þessu loknu var verksmiðja Deutsche See Fischmanufaktur GmbH skoðað undir leiðsögn Peter Dill forstjóra, en þetta mikla fyrirtæki á m.a. gríðarmikið hátækni-fiskvinnsluhús í Bremerhaven, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason ásamt sendiherra og fulltrúum íslensks sjávarútvegs tók síðan þátt í umræðufundi með hagsmunaðilum á þessu svæði er varðar verslun og viðskipti með íslenskan fisk ásamt fulltrúum frá þýska sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Fundarstjóri var Dr. Matthias Keller, framkvæmdastjóri Bundesmarktverbandes der Fischwirtschaft e.V. Ráðherra hélt þarna inngangserindi sem er hjálagt.

Á fundinum voru fyrst og fremst rædd málefni er varða sjálfbærni veiða á djúpkarfa og gullkarfa við Íslandsstrendur ásamt framtíð séríslensks merkis til staðfestu þess að Íslendingar stunda ábyrgar fiskveiðar. Fram kom að útskýringar okkar á vöxt og viðgagni þessara karfastofna eru taldar sannfærandi og því var fagnað sérstaklega að nú er gert ráð fyrir skiptri veiðistjórn á þessum stofnum, sbr. frumvarp ráðherra til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða. Hvað hið séríslenska merki varðar lögðu Þjóðverjarnir áherslu á öflugt kynningarstarf til að vinna því tilhlítandi sess á markaðinu. Mikilvægt að það kæmi skýrt fram í merkingunni að varan væri íslensk. Fram kom hjá íslenskum forsvarsmönnum úr sjávarútveginum að þeir hefðu fulla trú á íslenska merkinu en flýta yrði vinnu við að ljúka vottun þriðja aðila og öðru sem með þyrfti svo merkið hlyti fullt gildi.

Ræðu ráðherra má sjá hér

Sendinefnd Íslands:
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra
Jóhann Guðmundsson, aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra
Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar
Árni Múli Jónasson, forstjóri Fiskistofu
Ruth Bobrich, viðskiptafulltrúi sendirráði Íslands í Berlín

Páll Kr. Pálsson, formaður ÞÍV
Kristján Hjaltason, stjórn ÞÍV
Kristín S. Hjálmtýsdóttir, frkvstj ÞÍV
Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB Granda



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta