Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2010 Matvælaráðuneytið

Nr. 13/2010 - Nefnd skilar skýrslu um hvernig efla megi svínarækt á Íslandi

Nefnd um svínarækt skilar skýrslu
Nefnd um svínarækt skilar skýrslu

 

Þann 8. október 2009 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, starfshóp, sem hafði það að verkefni að kanna og leggja fram tillögur um hvernig megi efla svínarækt á Íslandi með sérstöku tilliti til íslenskra aðstæðna hvað varðar fæðuöryggi, fóðuröflun og umhverfissjónarmið. Nefndin var þannig skipuð:

·         Björn Halldórsson bóndi, Akri, formaður, skipaður af ráðherra.

·         Guðbrandur Brynjúlfsson, bóndi, Brúarlandi og

·         Hörður Harðarson, bóndi, Laxárdal, tilnefndir af Svínaræktarfélagi Íslands,

·         Björn Steinbjörnsson, dýralæknir, tilnefndur af Matvælastofnun og

·         Grétar Hrafn Harðarson, dýralæknir, tilnefndur af Landbúnaðarháskóla Íslands.

Níels Árni Lund, skrifstofustjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu var starfsmaður starfshópsins.

 

Starfshópurinn lauk störfum og skilaði skýrslu til ráðherra þann 12. febrúar 2010.

 

Undir lok skýrslunnar eru dregin saman helstu atriði sem starfshópurinn fjallaði um og þar kemur m.a. eftirfarandi fram:

 

Áhersluatriði:

Hvað eftir annað hefur verið bent á mikilvægi þess að Íslendingar geti verið sjálfum sér nógir hvað framleiðslu matvæla varðar.  Þessi umræða hefur stóraukist síðustu misseri, ekki aðeins hér á Íslandi, heldur um allan heim sem kristallast í þeim markmiðum að þjóðir lifi við fæðuöryggi.

 

Sjaldan eða aldrei hefur þessi umræða orðið háværari hér á landi en í kjölfar efnahagshrunsins í lok ársins 2008.  Jafnhliða þeirri umræðu þarf að meta stöðu íslensks landbúnaðar í ljósi þess að Alþingi ákvað á árinu 2009 að  sækja um aðild að Evrópusambandinu (ESB). 

 

Vitað er að núverandi samkeppnisstaða íslenskrar landbúnaðarframleiðslu mun breytast ef til þess kemur að Ísland verði aðildarland ESB.  Hvernig sú staða breytist er vart hægt að fullyrða nokkuð um en íslenskir bændur hafa áhyggjur af að staða þeirra muni versna í samkeppni við óheftan aðgang annarra landa að íslenskum mörkuðum.  Vitað er að landbúnaðarframleiðsla innan ESB ríkja nýtur margvíslegra styrkja, ekki síður óbeinna en beinna.

 

Svínabændur, sem aðrir búvöruframleiðendur, hafa áhyggjur af framtíðinni í þessum efnum. Stjórn Svínaræktarfélags Íslands sendi nefnd um þróun Evrópumála erindi þann 23. febrúar 2009 þar sem kemur fram að það sé mat SFÍ að ef Ísland gangi í ESB muni innlend svínarækt, að óbreyttu, leggjast af. 

 

Hvað svo sem framtíðin kann að bera í skauti sér um inngöngu Íslands í ESB, er mikilsvert að auka hagkvæmni íslenskra svínabúa og að þau styðjist sem mest við innlend aðföng.  Er það í samræmi við markmið um að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar.

 

Búa þarf íslenskri svínarækt sambærilegt starfsumhverfi og öðrum búgreinum sem ætlað er að sjá þjóðinni fyrir matvælum.  Ljóst er að framleiðsla íslensks svínakjöts mun einvörðungu, eða því sem næst, hafa það markmið að uppfylla innlenda eftirspurn. Ekki er fyrirséð að gerlegt sé að keppa á heimsmarkaði í verði við framleiðendur sem búa við mun hagstæðari aðstæður til framleiðslu og markaðssetningar en gerast hér á landi. Þeir þættir sem einkum ráða þar um eru veðurfarsþættir og fjarlægð á markaði.

 

Íslenskir svínabændur njóta óverulegra styrkja úr landbúnaðarkerfinu, ef frá er skilinn stuðningur við kynbótastarfsemi, en vitað er að bændur í öðrum Evrópulöndum njóta margs háttaðs stuðnings, m.a. í formi búsetustyrkja og til kornræktar.

 

Stuðningur vegna kornræktar í Danmörku er um 2.200.- dkr á ha sem er dæmigert fyrir stuðning innan Evrópusambandsins.  Í Noregi er þessi styrkur breytilegur eftir landssvæðum (breiddargráðum) og greiddur bæði á flatareingingu lands, gyltur og grísi.  Þá er í Noregi auk þess veittur styrkur vegna afleysingaþjónustu.  Enn má bæta við að í Noregi er veittur styrkur til kornkaupenda sem getur numið mismuni á innlendu verði og heimsmarkaðsverði.

 

Ekki eru til neinir samningar milli svínabænda og ríkisvaldsins í svipuðum anda og í öðrum búgreinum t.d. sauðfjárrækt, mjólkurframleiðslu og garðyrkju.  Einnig má benda á óformlega samninga við skógarbændur. Starfshópurinn leggur til að ríkisvaldið og svínabændur geri með sér samning um stuðning, starfsskilyrði og samfélagslegar skyldur búgreinarinnar.

 

Þrátt fyrir að aðstaða og fagleg þekking í svínarækt sé fyrir hendi er fjárhagslegur grundvöllur greinarinnar ótryggur og dæmi eru um að rekstri búanna hafi verið haldið uppi á fölskum forsendum.  Á undanförnum árum hefur það komið fyrir að bankar og aðrar lánastofnanir hafa gripið  inn í rekstur svínabúa. Velta má því fyrir sér hvort það sé í samræmi við góða starfshætti fjármálafyrirtækja. Nauðsynlegt er að þetta sé tekið til skoðunar þegar verið er að meta samkeppnisaðstöðu íslenskra svínabænda. 

 

Það er umhugsunarvert hvort ekki eigi með einhverjum hætti að stuðla að fjölgun smærri svínabúa og gera þannig svínarækt á Íslandi líkari öðrum greinum landbúnaðar þar sem fjölskyldurekstur er algengastur.  Eftirlit með heilbrigði og aðbúnaði svína yrði mun öruggara og auðveldara hjá smærri einingum en þeim stóru. Bendir starfshópurinn á að í Noregi er stuðlað að því með stuðningi hins opinbera að hamla gegn mjög stórum búum.

 

Sóknarfæri íslenskra svínabænda liggja í því að nýta möguleika til innlendrar fóðuröflunar, tryggja hreinleika við framleiðsluna og hollar afurðir, jafnframt að tryggja velferð dýranna og að aðbúnaður og framleiðsla sé í sátt við umhverfið.  Einn liður í því að tryggja öryggi afurða er að koma á upprunamerkingum svínakjöts. Neytendur vilja og eiga rétt á að vita sem mest um uppruna þeirrar vöru sem þeir kaupa.

 

Ekkert íslensk svínasláturhús hefur fengið löggildingu Evrópusambandsins. Lítið sem ekkert er því flutt út af svínakjöti og það sem flutt hefur verið út hefur farið á markaði í  Asíu og Rússlandi þar sem kröfurnar eru  slakari en hjá Evrópusambandinu. Mikilvægt er að minnsta kosti eitt sláturhús fái löggildingu Evrópusambandsins. Bendir nefndin á að frá og með 1. nóvember 2011 eiga öll sláturhús landsins að uppfylla reglur Evrópusambandsins samkvæmt lögum nr. 143/2009.

 

Talið er að hver gylta ásamt grísum gefi frá sér um 17 tonn af svínaskít á ári og með það í huga koma um 3.400 tonn frá 200 gyltum sem ætla má að geti verið hagkvæm stærð af fjölskyldubúi.  Áætla má að til að taka á móti þessum svínaskít þurfi um 200 ha túns eða um 400 ha til byggræktar.

Með tilkomu kornræktar á Íslandi og þróun þeirrar framleiðslu bendir fátt til annars en að íslenskir svínabændur geti að verulegu leyti fóðrað dýr sín á innlendu korni og þar sem aðstæður leyfa tekið virkan þátt í kornrækt.  Jafnframt má auka notkun á íslenskri fitu og fiskimjöli. Ekki er óeðlilegt að greinin hafi það markmið að yfir 80% fóðursins sé af innlendum uppruna. Þarf vart að fjölyrða um gildi þess en rétt að benda á gjaldeyrissparnað og fóðuröryggi. 

Niðurstöður

  1. Starfshópurinn telur að svínarækt á Íslandi eigi að vera rekin á sömu forsendum og aðrar greinar íslensks landbúnaðar.  Við framleiðsluna skuli taka mið af fæðuöryggi þjóðarinnar og hollustu afurðanna ásamt samfélagslegum áhrifum búgreinarinar hvað varðar verðmætasköpun, aukna atvinnu og í að treysta byggð. 
  2. Starfshópurinn leggur áherslu á að svínarækt og akuryrkja þróist samhliða með það að markmiði að stuðla að hagkvæmari kjötframleiðslu í landinu á grundvelli innlendrar fóðuröflunar og landnýtingar.  Með því skapast augljós sóknarfæri sem skylt er að nýta eins og kostur er, ekki síst m.t.t. fæðuöryggis þjóðarinnar, gjaldeyrissparnaðar og nýtingu landgæða.
  3. Starfshópurinn telur að hægt sé að stórefla hlutdeild byggs og þar með íslensks korns í fóðri svína.
  4. Starfshópurinn telur að í ljósi þeirrar miklu hlutdeildar svínakjöts á markaði hérlendis þurfi að hefja hagnýtar rannsóknir í svínarækt hérlendis ekki síst með það að markmiði að auka hlut innlendra hráefna í fóðri.
  5. Starfshópurinn telur að setja þurfi svínaræktinni í landinu metnaðarfull markmið í umhverfismálum. Svínaskít skuli nota til áburðar í jarðrækt eða á annan hátt þar sem efnainnihald og eiginleikar skítsins eru nýttir.
  6. Starfshópurinn telur brýnt að endurskoða reglugerð 804/1999 um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnugreinum. Starfshópurinn bendir á að nákvæmar reglur gilda í Danmörku um skilyrði til búrekstrar m.t.t. umhverfisáhrifa og er lagt til að þær reglur verði hafðar til hliðsjónar við endurskoðun reglugerðar.
  7. Samhliða þarf að endurskoða starfsreglur um góða búskaparhætti, sem vísað er til í reglugerð 804/1999.
  8. Starfshópurinn leggur til, að reglugerð nr. 219/1991 um aðbúnað á svínabúum verði endurskoðuð með það að markmiði að bæta aðbúnað og velferð svínanna og tryggja heilbrigði þeirra. Í því sambandi er mikilvægt að allar leiðbeiningar og eftirlit opinberra aðila verði með þeim hætti að það vísi veginn til betri árangurs. Við endurskoðunina skal horft til  þeirra breytinga sem eiga sér stað í þessum málum í Evrópu.
  9. Starfshópurinn telur að útgáfa starfsleyfa og eftirlit eigi að vera á einni hendi.
  10. Starfshópurinn varar við þeirri þróun að þjappa framleiðslu svínaræktarinnar svo mikið saman að hún fari að stærstum hluta fram á fáum stöðum.  Í því sambandi vekur starfshópurinn athygli á þeirri hættu sem fólgin er í stórum rekstrareiningum, bæði m.t.t. öryggis vegna sjúkdómahættu og hugsanlegar skaðabótaskyldu hins opinbera t.d. ef til niðurskurðar kemur af völdum A-sjúkdóma og skilgreindir eru í lögum nr 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.
  11. Starfshópurinn bendir á að full ástæða sé til að skoða verðmyndum lyfja sem nauðsynleg eru í svínakjötsframleiðslu. Verð á lyfjum er t.d. mun hærra hér en í Danmörku.
  12. Starfshópurinn leggur til að gerður verði samningur milli svínabænda og hins opinbera. Í þeim samningi verði kveðið á um stuðning, starfsskilyrði og samfélagslegar skyldur búgreinarinnar og það umhverfi sem greininni er ætlað að búa við, svo og þær skyldur sem henni er ætlað að standa undir í þágu íslensks samfélags.
  13. Starfshópurinn telur, að þrátt fyrir þá erfiðleika sem svínaræktin glímir við um þessar mundir, geti hún átt fyrir sér bjarta framtíð í landinu, sé rétt á málum haldið,- treyst byggð, eflt atvinnu og aukið á fæðuöryggi þjóðarinnar. Liður í að ná þeim markmiðum eru framangreindar tillögur starfshópsins.

 

Skýrsla starfshóps um hvernig megi efla svínarækt á Íslandi með sérstöku tilliti til íslenskra aðstæðna hvað varðar fæðuöryggi, fóðuröflun og umhverfissjónarmið.

 Nefnd um svínarækt skilar skýrslu



Nefnd um svínarækt skilar skýrslu
Nefnd um svínarækt skilar skýrslu

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta