Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2010 Matvælaráðuneytið

Nr. 14/2010 - Staðan í skuldamálum bænda, fundur í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu 26. febrúar 2010

Fundur_um_fjarhagstodu_landbunadarinsSjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, boðaði til fundar í ráðuneytinu um stöðuna í skuldamálum bænda. Á fundinn mættu auk ráðherra Atli Gíslason, þingmaður og formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Lilja Mósesdóttir formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Jón Gunnarsson þingmaður, Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands, Sigurgeir Þorgeirsson ráðuneytisstjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, Jóhann Guðmundsson aðstoðarmaður ráðherra, Ingimar Jóhannsson skrifstofustjóri í ráuneytinu og fulltrúar viðskiptabankanna sem fara með málefni bænda.

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók fram í upphafi fundar að allir aðilar yrðu að gera sér vel grein fyrir mikilvægi fæðuöryggis, dýraverndunarsjónarmiðum og hinni samfélagslegu ábyrgð í málinu. Tryggja verður framleiðendum með öllum ráðum rekstrarfé, þannig að framleiðsla haldist.

 

Á fundinum kom m.a. fram að gera megi ráð fyrir að 100-120 kúabú (um 20% heildarframleiðslunnar) á landsvísu eigi í verulegum greiðsluvanda. Þessir aðilar munu eiga í vandræðum með að fjármagna kaup á rekstrarvörum svo sem  áburði og sáðvörum, en sá kostnaður gæti verið 400-500 m.kr. á næstunni. Mikilvæg er að mjólurframleiðsla dragist ekki saman, þar sem staðan á markaðnum er þannig að framboð og eftirspurn eru í jafnvægi.

           

Sauðfjárbúin eru ekki jafn skuldsett og vandinn því ekki eins mikill þar. Þó má gera ráð fyrir að einhverjir sauðfjárbændur muni eiga í erfiðleikum með að fjármagna áburðarkaup.

 

Staða þeirra sem verst eru settir er þannig, að úrræði banka og lánastofnana virðast ekki duga til áframhaldandi reksturs. Fram kom að mun hægar hefur gengið að ganga frá skuldamálum bænda en áformað var. Á því eru ýmsar skýringar, m.a. að sum fjármögnunarfyrirtækin hafa ekki unnið með bönkunum að þessum málum eins og ráð var fyrir gert. Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtakanna og fulltrúar ráðuneytisins tóku sérstaklega fram á fundinum, að mjög gott samstarf væri við  bankana um þessi mál.

 

Á fundinum var ákveðið að fulltrúar bankanna myndu á næstu dögum gera ráðuneytinu grein fyrir hvað þyrfti að gera svo hægt væri að flýta þessu ferli, þannig að hægt væri að koma  skuldamálum bænda í viðunandi farveg. Ákveðið var að Ingimar Jóhannsson frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu myndi vinna að málinu með fulltrúum viðskiptabankanna.

 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu,

26. febrúar 2010

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta