Hoppa yfir valmynd
1. mars 2010 Dómsmálaráðuneytið

Andlát Þorsteins Geirssonar ráðuneytisstjóra

Þorsteinn Geirsson
Þorsteinn Geirsson.

Þorsteinn Geirsson, ráðuneytisstjóri dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, lést síðastliðið föstudagskvöld, hinn 26. febrúar, eftir erfið veikindi. Þorsteinn átti að baki áratugalangt starf innan Stjórnarráðs Íslands, lengst af sem ráðuneytisstjóri dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Á farsælum embættisferli átti Þorsteinn ríkan þátt í að efla og styrkja stjórnsýslu innan Stjórnarráðsins.   

Þorsteinn var fæddur 15. febrúar 1941 í Reykjavík en foreldrar hans voru Rebekka Þorsteinsdóttir húsmóðir og Geir Magnússon sjómaður. Hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1966 og varð hæstaréttarlögmaður árið 1972. Að loknu námi starfaði hann fyrst hjá Árna Guðjónssyni hæstaréttarlögmanni en hóf árið 1971 störf sem fulltrúi í fjármálaráðuneytinu, og varð síðar skrifstofustjóri og ráðuneytisstjóri þar um tíma. Hann varð ráðuneytisstjóri sjávarútvegsráðuneytisins 1984 og ráðuneytisstjóri dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá árinu 1985, að undanskildum árunum 1999-2003 þegar hann var ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu. Þorsteinn gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum á vegum hins opinbera og sat í mörgum nefndum og ráðum og var m.a. formaður samninganefndar ríkisins í launamálum frá 1977 til 1984. 

Eftirlifandi eiginkona Þorsteins er María Friðrika Haraldsdóttir skrifstofumaður en fyrri eiginkona hans, Guðrún K. Sigurðardóttir kennari, lést árið 1983. Hann lætur eftir sig fjögur uppkomin börn, stjúpson og fimm barnabörn.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta