Hoppa yfir valmynd
1. mars 2010 Matvælaráðuneytið

Landbúnaðarverðlaunin 2010 veitt við setningu Búnaðarþings

Landbúnaðarverðlaun 2010
Landbúnaðarverðlaun 2010

Árlega veitir landbúnaðarráðherra svonefnd “Landbúnaðarverðlaun” við setningu Búnaðarþings og fór sú athöfn fram í sunnudaginn 28. febrúar.

Reynt hefur verið að skapa breydd í verðlaunahafa bæði hvað varðar landshluta svo og þann búskap sem viðkomandi aðilar reka.

Óhætt er að fullyrða að þessi verðlaunaveiting hefur mæst vel fyrir og aldrei hafa komið upp raddir í þá átt að viðkomandi eigi ekki viðurkenningu skylda.  Hitt má öllum vera ljóst að af svo stórum hópi sem bændur landsins eru, má víða finna fyrirmyndarbú.

Tilgangur verðlaunaveitingarinnar er að vekja athygli á því sem vel er gert í búskap, ræktun lands og góðri umhirðu, –  ræktun mannlífs í sveitum og varðveislu menningar og menningararfs sveitanna. Og ekki síður til að vekja athygli á frumkvæði og nýjum hlutum, sem efla atvinnulíf og samfélag byggðanna

Nokkuð hefur verið misjafnt hve margar viðurkenningar eru veittar árlega en að þessu sinni hljóta landbúnaðarverðlaunin 2010 tvö býli – að mörgu leyti ólík en eiga það sammerkt að þar ríkir dugnaður og bjartsýni sem þjóðini er svo mikil nauðsyn á í dag.

 

Verðlaunagripirnir eru hannaðir og smíðaðir af Ívari Björnssyni gullsmið, útskorið Ísland úr silfurplötu með upphleyptu skjaldarmerki Íslands.  Hvílir þetta á svartri granítplötu.

 

Hraun á Skaga

Nafn þessa býlis er í vel þekkt í hugum þjóðarinnar en í tæp 70 ár verið lesnar veðurlýsingar frá Hrauni á Skaga í útvarpinu, og má geta þess að veðurathugunarstöð hefur verið starfrækt þar fá árinu 1942.

Hraun er nyrsti bær í Skagafjarðarsýslu og einn af útvörðum landsins í þeim skilningi. Landið liggur að sjó og jörðinni tilheyra allmörg og góð veiðivötn. Landið víða grýtt, - hálsir og klettaborgir og mýrlendi töluvert.  Hraunsmúlinn – grasigróið nes gengur út í hafið, þar er æðarvarp sem m.a. komu myndir af er ísbjörn gerði sig þar heimakominn á síðasta ári.  Þar er einnig Skagartáarviti.

Landið er hrjóstugt sem gerir ræktun erfiða en hlunnindi ágæt og reynir því á ábúendur að nýta það sem landið hefur upp á að bjóða og það hafa þeir gert.

 

Árið 1914 hófu búskap á Hrauni  Steinn Sveinsson og Guðrún Kristmundsdóttir. Steinn stundaði sjósókn með búskapnum, réri til fiskjar með nágrönnum sinum og eins til hákarlaveiða.  Þá ákváðu þau hjónin að koma upp æðarvarpi  sem 1914 þá taldi aðeins þrenn pör. 

Árið 1953 kom Rögnvaldur, sonur þeirra með þeim að búinu og hefur ásamt konu sinni Guðlaugu Jóhannsdóttur setið jörðina síðan.  Fyrst og fremst var á Hrauni gott sauðfjárbú, - kýr til heimilisnota og æðarvarp og önnur hlunnindi nýtt. Þá sinntu þau Rögnvaldur og Guðlaug veðurathugunum fyrir Veðurstofu Íslands og gera enn.

Enn urðu ættliðaskipti 1998 er Steinn sonur þeirra hóf búskap með þeim og kona hans Merete Kristiansen Rabölle, dönsk að ættum sem flutti til Íslands 1991. Höfðu þá einnig aðrir synir Rögnvaldar og Guðlaugar sinnt búinu með þeim foreldrum sínum ásamt annarri vinnu.

Steinn og kona hans Merete hafa að mestu staðið að rekstri sauðfjárbúsins en Rögnvaldur og Guðlaug lagt meiri áherslu á æðarvarpið með ágætum árangri.

Í dag búa á Hrauni Steinn og Merete með þremur börnum sínum, einnig Rögnvaldur og Guðlaug svo og Jóhann sonur þeirra sem hefur reist sér hús á jörðinni, aðstoðar við búið á helstu álagstímum en stundar skólaakstur á Sauðárkrók auk annarrar vinnu sem til fellur utan heimilisins.

Búskapurinn er fjölbreyttur; 400 vetrafóðraðar kindur, æðarvarp sem gefur um 50 kg af hreinsuðum dún í bestu árum, nokkur silungsveiði sem vaxandi sókn er í og trillan Sæfari sem er sameign feðganna og nágranna þeirra er gerð út til fiskveiða á línu,  handfæri og gráslepu.  Auk þessa sækir Merete póst 4 daga í viku til Sauðáekróks og dreifir um sveitina.

Auk Steins og Jóhanns eiga Rögnvaldur og Guðlaug tvo aðra syni. Jón sem býr ásamt fjölskyldu sinni skammt frá Blönduósi og Gunnar sem býr með fjölskyldu sinni á Löngumýri í Skagafirði.  Á annatímum á Hrauni  svo sem við dúntínslu og smalamennskur koma þeir bræður gjarnan með fjöldskyldur sinar heim að Hrauni og sannast þá máltækið að margar hendur vinna létt verk.

Fyrir myndarlegt íslenskt heimili, nýtingu hlunninda og ágætan búskap hlýtur Hraun á Skaga landbúnaðarverðlaunin 2010. 

Vil ég biðja þau Merert og Stein að koma hingað upp til mín og taka á móti verðlaunagripnum.

 

Hrossaræktarbúið á Grænhóli í Ölfusi

Hjónin Gunnar Arnarson og Kristbjörg Eyvindsdóttir hafa stundað hestamennsku frá ungum aldri og gerðu hestamennskuna fljótlega að lífsviðuværi sínu. Tömdu og þjálfuðu hross, sýndu fyrir kynbótadómi og tóku þá í keppnum með afar góðum árangri.

Einnig stunduðu þau reiðkennslu, einkum þó Kristbjörg sem starfaði um langt árabil við reiðkennslu og æskulýðsstörf bæði hjá hestamannafélaginu Fák. Þau hafa jafnframt tekið virkan þátt í félagsstarfi hestamanna.

Gunnar og Kristbjörg hófu útflutning á hrossum  og reka nú umsvifamikið og traust fyrirtæki á þeim vettvangi.

Hrossarækt Gunnars og Kristbjargar á sér hátt í þriggja áratuga sögu. Þau byrjuðu í smáum stíl og lögðu traustan grunn að starfi sínu með því að koma sér upp öflugum ræktunarhryssum.

Auk Gunnars og Kristbjargar koma börn þeirra bæði að rekstrinum, þau Þórdís Erla sem er með lokapróf í hestamennsku og reiðkennararéttindi frá Hólaskóla og Eyvindur Hrannar sem stundar nám í hagfræði við Háskóla Íslands en vinnur við búið í námshléum.

Megin starfsstöð ræktunarbúsins er núna á Grænhóli í Ölfusi. Hrossarækt þeirra Gunnars og Kristbjargar er kennd við Auðsholtshjáleigu í Ölfusi en það er jörð sem þau eiga í félagi við Eyvind Hreggviðsson föður Kristbjargar og systkini hennar.

Grænhól eignuðust Gunnar og Kristbjörg um síðustu aldamót. Þau hafa endurbyggt öll útihús á Grænhóli og eru nú með góð hesthús þar fyrir um 50 tamningahross auk aðstöðu á Auðsholtshjáleigu og aðstöðu til útgjafa fyrir stóðið á löndum sínum. Þá hafa þau komið sér upp góðu íbúðarhúsi á Grænhóli, byggt þar glæsilega reiðhöll sem var vígð í lok ársins 2007 og nú síðastliðið haust komu þau upp löglegum keppnisvöllum og skeiðbraut í fullri lengd heima á Grænhóli ásamt því að leggja reiðstíga um landið úr efni sem finna má í bæjarlandinu sjálfu. Umgengni öll á búinu hvort sem er utan húss eða innan er til stakra fyrirmyndar og mjög snyrtilegt heim að líta..

Hrossaræktin á  Auðsholtshjáleigu hefur verið byggð upp eftir þeirri forskrift sem best hefur reynst; vandað til vals á stofnhryssum og notaðir þeir stóðhestar sem bestir eru.  Búið er sífellt að stækka en aldrei slegið af hvað kröfur um gæði varðar.

Frá búinu er sýndur álitlegur fjöldi hrossa ár hvert og hefur það verið tilnefnt til heiðursviðurkenningarinnar: Ræktunarbú ársins 10 sinnum og hlotið verðlaunin flest allra eða fjórum sinnum; 1999, 2003, 2006 og 2008.    

Fyrir dugnað og snyrtimennsku, ræktun íslenska hestsins og markaðsstarf hljóta þau hjónin Kristbjörg Eyvindsdóttir og Gunnar Arnarson, á Grænhóli í Ölfusi landbúnaðarverðlaunin 2010.

Bið ég þau hjónin að koma hingað upp til mín og taka á móti verðlaunagripnum.

Landbúnaðarverðlaun 2010

 

Á myndinn eru Merete kristiansen Raböller, Steinn Rögnvaldsson og Guðlaug Jóhannsdóttir frá Hrauni á Skaga, Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristbjörg Eyvindsdóttir og Gunnar Arnarson frá Grænhóli í Ölfusi. 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta