Nýr formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins
Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur skipað Lilju Ólafsdóttur héraðsdómslögmann formann stjórnar Fjármálaeftirlitsins (FME), í stað Dr. Gunnars Haraldssonar hagfræðings. Gunnar óskaði lausnar frá störfum stjórnarformanns 15. febrúar síðastliðinn, en hann hverfur nú til starfa á vettvangi Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í París.
Lilja lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands árið 1982 og LLM prófi frá Yale háskóla árið 1983. Hún er starfandi lögmaður í Reykjavík og hefur m. a. verið ráðgjafi stjórnar FME síðan í júní 2009. Lilja var samningamaður Íslands um laga- og stofnanamál við gerð samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og starfaði um árabil sem yfirlögfræðingur Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) í Genf. Þá hefur hún verið alþjóðlegur ráðgjafi og samningamaður á sviði viðskiptamála og varafastafulltrúi Íslands við ýmsar alþjóðastofnanir.