Styrkjum úthlutað til meira en 65 menningarverkefna á Austurlandi
Menningarráð Austurlands úthlutaði í gær 25. febrúar styrkjum til ríflega 65 menningarverkefna á Austurlandi, samtals að upphæð 23 milljónum króna. Hæstu styrkir námu 1 milljón króna en þeir lægstu 100 þúsund krónum.
Alls bárust menningarráðinu 135 styrkumsóknir að þessu sinni. Ráðherrar mennta- og menningarmála og iðnaðar endurnýjuðu samstarfssamning ríkis og sveitarfélaga á Austurlandi um menningarmál þann 9. janúar 2008 og gildir hann til ársloka 2010.
Þetta er í tíunda sinn sem úthlutað er styrkjum samkvæmt samstarfssamningi ríkis og sveitarfélaga en fyrsta úthlutun fór fram árið 2002. Af umsóknum og úthlutunum í ár má ráða hve fjölbreytt og blómlegt lista- og menningarlíf er á Austurlandi, allt frá Vopnafirði og suður í Öræfi.