Hoppa yfir valmynd
4. mars 2010 Matvælaráðuneytið

Ný lög auka gagnsæi eignarhalds og skerpa áherslu á jöfn kynjahlutföll

 Alþingi samþykkti í dag frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. Tilgangur frumvarpsins er að svara auknum kröfum sem fram hafa komið í ljósi liðinna atburða varðandi gagnsæi eignarhalds í hlutafélögum, um jafnari kynjahlutföll í stjórnum og minnka líkur á hagsmunaárekstrum í starfi stjórnarformanna. 

 Með lögunum er lögð rík skylda á að stjórnir hlutafélaga sjái til þess að hluthafaskrá geymi á hverjum tíma réttar upplýsingar um hluthafa og öll þau samstæðutengsl sem félagið er í. Með þessum breytingum á lögum verður gagnsæi um eignarhald og meðferð hluta meira en verið hefur.

 Auk þess miðar frumvarpið að því að auka rétt hluthafanna til þess að fá upplýsingar frá stjórn um eignarhald, atkvæðisrétt og samstæðutengsl annarra hluthafa. Réttur hluthafa til að krefja stjórn félags skýringa og upplýsinga er gerður mun sterkari og einnig er stjórnvöldum auðveldaður aðgangur að þessum upplýsingum.

 Samkvæmt lögunum skal hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn einkahlutafélaga og hlutafélaga þar sem fleiri en 50 starfsmenn starfa að jafnaði þegar stjórn er skipuð þremur mönnum og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír skal tryggt að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%.  Í tilkynningum til hlutafélagaskrár skuli sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna. Við ráðningu framkvæmdastjóra ber að gæta að kynjahlutföllum og hlutafélagaskrá á einnig að geyma upplýsingar um hlutföll kynja meðal framkvæmdastjóra allra félaga með fleiri en 25 starfsmenn.

 Að lokum er stjórnarformanni hlutafélags bannað að taka að sér önnur störf fyrir félag sitt  en þau sem falla undir eðlileg störf stjórnarformanns.  Þó getur félagsstjórn falið stjórnarformanni að vinna einstök verkefni.  Hlutafélagalög banna þegar að framkvæmdastjóri verði kosinn stjórnarformaður, en með þessari lagabreytingu er einnig komið í veg fyrir að stjórnarformenn séu úr röðum annarra æðstu stjórnenda. Miðar ákvæðið að því að minnka líkur á hagsmunaárekstrum enda er eitt af hlutverkum stjórnarformanns að stýra eftirliti félagsstjórnar með félaginu.   

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta