Ný áætlun um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Árna Páls Árnasonar, félags- og tryggingamálaráðherra, um að ráðast í gerð nýrrar aðgerðaáætlunar stjórnvalda gegn kynbundnu ofbeldi fyrir tímabilið 2011-2015. Gildandi aðgerðaáætlun var samþykkt árið 2006 og hefur meginþungi hennar falist í viðamiklum rannsóknum á eðli og umfangi ofbeldis karla gegn konum í nánum samböndum. Rannsóknunum lýkur á þessu ári og er ráðgert að skýrslu með tillögum til ríkisstjórnarinnar verði skilað í upphafi næsta árs. Framundan er nú kynningar- og fræðsluátak byggt á niðurstöðum rannsóknanna sem félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur falið Jafnréttisstofu að annast. Kynningarherferðin hefst í apríl.
Ákveðið hefur verið að í nýrri aðgerðaáætlun verði sérstök áhersla lögð á að skoða samhengi kynbundinna ofbeldisbrota, saksóknar vegna þeirra og meðferðar í dómskerfinu, en sem kunnugt er fara afar fá mál af þessum toga alla leið í gegnum dómskerfið. Auk þessa þarf að móta afstöðu til meðferðar nýs sáttmála Evrópuráðsins í málaflokknum og endurskilgreina verkefni með hliðsjón af honum. Í þessu skyni verður sett á fót nefnd skipuð fulltrúum félags- og tryggingamálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og dóms- og mannréttindamálaráðuneytis, auk þess sem óskað verður eftir þátttöku lögreglu, ríkissaksóknara, samtaka íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtaka í nefndinni.
Vinna við gerð nýrrar aðgerðaáætlunar hefst á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars og er stefnt að því að kynna fullbúna aðgerðaáætlun 24. október næstkomandi, á 35 ára afmæli kvennafrídagsins.
Tengt efni:
Fræðslurit um ofbeldi í nánum samböndum