Sveitarfélögum innan Eyþings fækkað úr 14 í 7, 5 eða 2?
Sjöundi fundur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtaka sveitarfélaga um eflingu sveitarfélaga var haldinn í gær á Akureyri. Nálega 50 sveitarstjórnarmenn af Norðausturlandi sátu fundinn.
Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti í upphafi ávarp um átaksverkefnið sem hófst í desember með fundi á Egilsstöðum. Ráðherra kvaðst viss um að vilji sveitarstjórnarmanna og íbúa væri hinn sami, að sveitarfélögin geti staðið undir því að veita íbúum sínum bestu mögulega þjónustu. Hann sagði ríkisstjórnina leggja áherslu á að efla sveitarstjórnarstigið og að Samband íslenskra sveitarfélaga hefði margoft lýst stuðningi við þau áform.
Verkefnaflutningur liður í eflingunni
Þá sagði ráðherra að verkefni sem flutt yrðu frá ríkinu til sveitarfélaga myndu vera liður í slíkri eflingu og minnti á áform um flutning á málefnum fatlaðra og aldraðra árin 2011 og 2012 og taldi næsta skref vera athugun á flutningi á heilsugæslu og framhaldsskólum til sveitarfélaga. ,,Ég hygg að íbúafjöldi og þá um leið stærð sveitarfélags ráði alltaf mjög miklu um hversu öflugt sveitarfélag verður. Sterkar einingar, fjölmennir byggða- og þjónustukjarnar og stór atvinnusvæði stuðla að því að hægt sé að standa undir nauðsynlegri þjónustu sveitarfélags í nútímasamfélagi. Íbúafjöldinn hlýtur því alltaf að vera ákveðin viðmiðun,” sagði ráðherra.
Í lok ræðu sinnar varpaði ráðherra fram hugmyndum um fækkun sveitarfélaga í Eyþingi, að þau yrðu 7, 5 eða jafnvel 2 og rifjaði upp að hann hefði nefnt í fyrri ræðum sínum að hugsanlegt væri að fækka sveitarfélögum úr 77 í 17 þótt það væri ekki heilög tala. Kvaðst hann sjá fyrir sér margvísleg sameiningartækifæri víða um land og að ekki mætti gleyma höfuðborgarsvæðinu í þessum efnum.
Sigrún Björk Jakobsdóttir, formaður Eyþings, og Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri Norðurþings, töluð einnig á fundinum. Bergur Elías lýsti sameiningu fjögurra sveitarfélaga í eitt í sveitarfélagið Norðurþing og sagði þar ekki hafa komið til greina að stjórnsýsla sveitarfélagsins yrði aðeins á einum stað, störf fyrir sveitarstjórn væru í öllum þremur þéttbýliskjörnum sveitarfélagsins.
Sigurður Tómas Björgvinsson, verkefnisstjóri eflingarátaksins, rifjaði upp fyrri sameiningarátök og sagði meðal annars að besta leiðin til að ýta undir sameiningar væri flutningur verkefna til sveitarfélaga. Hann sagði að höfuðborgarsvæðið yrði skoðað sérstaklega með sameiningar í huga.
Lykilatriði er traust
Í framhaldi af þessum inngangserindum var talsvert um innlegg og vangaveltur frá fundarmönnum. Kom þar meðal annars fram að varla yrði almenn sátt um ítrustu hugmyndir ráðherra um fækkun sveitarfélaga í 17 og að lögþvingaðar sameiningar myndu leggjast illa í íbúa. Einnig kom fram að hægt væri að sameina jafnvel þótt samgöngu gætu á stundum verið erfiðar, hægt væri að nota ,,loftið og línurnar” til samskipta, lykilatriði í sameiningarvinnu væri traust milli aðila og gætt yrði þess að nærþjónusta væri ávallt sem næst íbúum. Minnst var á að skólarekstur væri iðulega hitamál sem tengdust sameiningum en því varpað fram að menn gættu þess að tengja slík mál ekki saman.
Undir lok fundar kom síðan fram uppástunga um að sveitarfélög innan Eyþings rynnu í eitt sveitarfélag, best væri að taka sameiningar í stórum skrefum en ekki mjatla þær smám saman, slíkt myndi leiða til leiða og þreytu íbúa.