Áfram unnið að farsælli lausn Icesave-málsins
Helstu atriði:
- Fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslunni frá stofnun íslenska lýðveldisins lokið.
- Fyrstu tölur benda ótvírætt til þess að lög Alþingis um breytingu á áður samþykktum Icesave lögum falli úr gildi. Eftir standa þá lög nr. 96/2009 eins og þau voru samþykkt frá Alþingi í lok ágúst 2009 og staðfest af forseta Íslands í byrjun september. Bretar og Hollendingar féllust hins vegar ekki skilyrði þeirra laga fyrir veitingu ríkisábyrgðar og geta því lánasamningarnir frá 5. júní sl. ekki öðlast gildi á grundvelli þeirra.
- Samræður á milli ríkisstjórnanna þriggja um nýja lausn á Icesavemálinu hafa hins vegar þegar hafist. Undanfarnar þrjár vikur hafa samningamenn þeirra hittst í Lundúnum og hafa samræður þeirra verið jákvæðar og hefur ríkisstjórnin fulla trú á að ásættanleg lausn fyrir alla deiluaðila geti náðst.
- Allir stjórnmálaflokkar á Alþingi hafa lýst yfir stuðningi við lausn málsins sem felur í sér að íslensk stjórnvöld tryggi greiðslu innstæðna upp að lágmarki samkvæmt reglum um innstæðutryggingakerfi á Evrópska efnahagssvæðinu.
Íslensk stjórnvöld munu næstu daga áfram kappkosta að ná farsælli lausn í Icesave-málinu. Í dag fór fram fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan frá stofnun íslenska lýðveldisins. Kosið var um breytingu á hinum svokölluðu Icesave-lögum, þ.e. hvort lög nr. 1/2010 um breytingu á lögum nr. 96/2009 um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, að ábyrgjast lán til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum lágmarksinnstæðutryggingar til innstæðueigenda á Icesave-reikninga Landsbanka Íslands hf. skuli halda gildi sínu.
Samkvæmt fyrstu tölum er niðurstaðan skýr og verði endanleg niðurstaða í samræmi við þetta munu lög nr. 1/2010 falla úr gildi skv. 26. grein stjórnarskrár íslenska lýðveldisins. Þjóðaratkvæðagreiðslan var haldin í kjölfar þess að forseti Íslands synjaði Icesave-lögunum staðfestingar 5. janúar síðastliðinn með vísan til 26. greinar stjórnarskrár íslenska lýðveldisins. Í framhaldi var frumvarp ríkisstjórnarinnar um þjóðaratkvæðagreiðsluna samþykkt á Alþingi og kjördagur ákveðinn.
Þjóðaratkvæðagreiðslan var hins vegar sett í annað samhengi þegar ríkisstjórnin leitaði eftir og kom á samstöðu meðal allra stjórnmálaflokka um skipun nýrrar samninganefndar og nýjar samræður við bresk og hollensk stjórnvöld um lausn málsins sem staðið hafa undanfarnar vikur.
Á undanförnum vikum hefur miðað jafnt og þétt í samkomulagsátt og hafa Bretar og Hollendingar sýnt vilja til þess að sættast á lausn sem felur í sér umtalsvert lægri kostnað fyrir Íslendinga en fyrri samningur. Í viðræðunum hefur íslenska samninganefndin lagt fram tilboð sem felur í sér að Ísland tryggi greiðslu innstæðna upp að lágmarki því sem kveðið er á um í reglum Evrópska efnahagssvæðsins um tryggingar á bankainnstæðum.
Íslensk stjórnvöld munu áfram vinna að farsælli lausn Icesave-málsins á sömu forsendum. Þjóðirnar hafa einsett sér að halda viðræðum áfram og leita lausnar í málinu.
Reykjavík 6. mars 2010