Hoppa yfir valmynd
10. mars 2010 Innviðaráðuneytið

Tillaga um ársfjórðungsleg skil úr bókhaldi sveitarfélaga

Dreift hefur verið á Alþingi lagafrumvarpi til breytinga á sveitarstjórnarlögum sem felur í sér að sveitarfélögum verði gert að skila ársfjórðungslega upplýsingum úr bókhaldi og reikningsskilum til afnota fyrir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, aðra opinbera aðila og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Frumvarpið, sem unnið var í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, er annars vegar lagt fram í þeim tilgangi að tryggja nauðsynlegar heimildir til að afla ársfjórðungslegra fjármálaupplýsinga frá sveitarfélögum. Hins vegar er tilgangur þess að tryggja betra og markvissara aðgengi eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga að upplýsingum úr bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélaga.

Breytingatillögurnar eru fyrsta skrefið í þá átt að bæta efnahagslegt samráð ríkis og sveitarfélaga og fjármálakafla laganna. Unnið er að mótun tillagna um árlegan hagstjórnarsamning milli ríkis og sveitarfélaga, sem innihéldi meðal annars sameiginleg markmið ríkis og sveitarfélaga varðandi opinber fjármál komandi ára. Til að tryggja undirbúning og framkvæmd slíks samnings þurfa að liggja fyrir áreiðanlegar upplýsingar um fjárhagslega stöðu sveitarfélaga hverju sinni og mikilvægt er í því sambandi að vinna að söfnun samtíma fjármálaupplýsinga. Heimild til slíkrar upplýsingaöflunar er ekki til staðar í núgildandi lögum. Upplýsingar af þessum toga nýtast jafnframt fyrir eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, Hagstofu Íslands og aðra opinbera aðila sem vinna með fjármál sveitarfélaga.

Þá er jafnframt lagt til að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga fái sömu stöðu til að afla upplýsinga úr bókhaldi og reikningum einstakra sveitarfélaga og skoðunarmenn og endurskoðendur hafa í dag. Slík heimild er ekki til staðar í núgildandi lögum en það er mat ráðuneytisins að mikilvægt sé að nefndin hafi slíkar heimildir til að tryggja betur en nú er forsendur fyrir nefndina að rækja eftirlitshlutverk sitt.

Unnið er nú að heildarendurskoðun sveitarstjórnarlaga í góðu samstarfi ríkis og sveitarfélaga og vænta má tillagna frá starfshópi þar að lútandi í sumar. Meðal þess sem vænta má að lagt verði til við þá endurskoðun er að sveitarfélögum verði settar tilteknar fjármálareglur, svo sem varðandi heimildir til lántöku og markmið í rekstri. Þetta er aðkallandi verkefni sem ráðuneytið hefur lagt áherslu á að verði unnið hratt. Til greina kom að leggja til með þessu frumvarpi fyrstu útfærslu að slíkum relgum, en vegna þessarar sameiginlegu vinnu sem fram fer var ákveðið að frekari reglusetning á þessu sviði biði eftir umræddri heildarendurskoðun og tillögum um gerð hagstjórnarsamnings.

Sjá má frumvarpið á vef Alþingis.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta