Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftferðir til umsagnar
Ný drög að lagafrumvarpi um um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum eru nú til umsagnar hjá samgönguráðuneytinu. Unnt er að senda inn umsögn um drögin til og með miðvikudagsins 18. mars næstkomandi á netfangið [email protected].
Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum
um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum til umsagnar.
Með frumvarpi þessu eru gerðar tillögur til breytinga á nokkrum ákvæðum laga um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum. Lög og reglur á sviði flugsamgangna eru í eðli sínu alþjóðlegarreglur og mótast hið íslenska lagaumhverfi á því sviði að miklu leyti af þeim skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist með aðild sinni að Alþjóðaflugmálastofnuninni og Samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Mikið af þeim breytingum sem frumvarp þetta leggur til að gerðar verði á gildandi loftferðalögum eru þáttur í því að ríkið uppfylli þessar alþjóðlegu skuldbindingar og að íslenskt lagaumhverfi endurspegli þær breytingar sem hafa orðið á því alþjóðlega. Þar sem flugsamgöngur eru hlutfallslega stór þáttur í atvinnustarfsemi hér á landi hefur ávallt verið lögð áhersla á að hið íslenska lagaumhverfi sé uppfært og lagað að hinu alþjóðlega fljótt og vel. Í frumvarpinu er einnig að finna breytingar er snúa að neytendahagsmunum en á síðastliðnum árum hefur verið lögð meiri áhersla á mikilvægi neytendasjónarmiða við flugsamgöngur bæði erlendis og hérlendis og eru breytingar þessar gerðar til að endurspegla þá áherslubreytingu.
Helstu breytingar:
- Flugmálastjórn Íslands er veitt heimild til setningu reglna á tilteknum sviðum á verksviði stofnunarinnar. Er hér yfirleitt um að ræða reglur er lúta að tæknilegum þáttum í rekstri loftfara eða viðhaldsstöðva, sbr. 2., 4. og 16. gr.
- Ráðherra eru veittar auknar heimildir til setningar reglugerða á afmörkuðum sviðum flugsamgangna, sbr. 5. og 8. gr.
- Flugmálastjórn Íslands er veitt úrskurðarvald um óleysanlegan ágreining sem upp kemur í notendanefnd vegna ákvörðunar um gjaldtöku á flugvöllum, sbr. 7. gr.
- Bótafjárhæðir vegna tjóns sem flytjanda ber að greiða eru hækkaðar, sbr. 9. og 11. gr.
- Flytjendur sem fljúga til eða frá landinu eða innanlands eru gerðir bótaskyldir vegna tjóns sem verður vegna tafa á flugi, sbr. 10. gr.
- Skyldur eru lagðar á flugrekendur, flytjendur, ferðaskrifstofur og umboðsmenn þeirra til að tryggja að tilteknar upplýsingar komi ávallt fram í því heildarverði sem upp er gefið fyrir flug eða flutning. Einnig er þeim aðilum ekki heimilt að mismuna viðskiptavinum við upplýsingagjöf eða aðgengi að farmiðum og farmiðaverði á grundvelli þjóðernis, búsetu eða staðsetningar söluaðila, sbr. 12. gr.
- Flugmálastjórn er veitt heimild til að taka ákvarðanir um kvartanir sem berast vegna frá neytendum og hafa slíkar ákvarðanir bindandi áhrif, sbr. 13. gr.
- Flugmálastjórn Íslands er veitt heimild til að taka ákvörðun um álagningu stjórnvaldssektar á eftirlitsskyldan aðila að tillögu Eftirlitsstofnunar EFTA eða Flugöryggisstofnunar Evrópu enda sé sú starfsemi sem tillaga um sekt grundvallast á óheimild skv. ísl. lögum, sbr. 14. gr.
- Heimildir Flugmálastjórnar Íslands til töku ákvarðana á starfssviði sínu eru styrktar og birting ákvarðana á heimasíðu stofnunarinnar veitt gildi, sbr. 15. gr.