Mjög góður árangur af starfi NEFCO
Mjög góður árangur náðist í rekstri Norræna Umhverfisfjármögnunarsjóðsins, NEFCO, á liðnu ári. Þau verkefni sem sjóðurinn fjármagnaði urðu til þess að draga úr losun mengandi efna, sér í lagi koltvísýrings, brennisteins, fosfórs og köfnunarefnis. Sjóðurinn veitti lán til 50 verkefna á árinu, aðallega í Rússlandi og Úkraínu. Um er að ræða verkefni á sviði endurnýjunar skolphreinsikerfa, endurnýjanlegra orkugjafa, bættrar orkunýtingu, bættrar meðhöndlunar sorps og hreinnar framleiðslu.
Hagnaður félagsins á liðnu ári var 2,6 milljarðar króna og fjármagn undir stjórn sjóðsins óx um 17% og er nú 383 milljónir evra.
Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu, gegndi formennsku í NEFCO á árinu 2009. Ársfundur sjóðsins fór fram í Helsinki í Finnlandi í liðinni viku.
Norræna Umhverfisfjármögnunarfélagið, NEFCO, er alþjóðleg fjármálastofnun með aðsetur í Helsinki í Finnlandi. NEFCO var stofnað árið 1990 af ríkisstjórnum Norðurlandanna. Meginmarkmið NEFCO er að fjármagna arðsöm umhverfisverkefni í nærliggjandi svæðum Norðurlandanna, Rússlandi, Úkraínu, Hvíta-Rússlandi, Eistlandi, Lettlandi og Litháen.
Efnt verður til kynningarfundar fyrir íslensk fyrirtæki á starfsemi NEFCO 15. apríl næstkomandi. Fundurinn veðrur auglýstur nánar síðar.
Hér má nálgast frétt um ársuppgjör NEFCO á heimasíðu sjóðsins.
Frekari upplýsingar um starfsemi NEFCO má finna á heimasíðu sjóðsins.