Forsætisráðherra fundar með Mohamed Nasheed, forseta Maldíveyja
Forsætisráðherra tók í dag á móti forseta Maldíveyja í heimsókn hans til Íslands. Forsetinn lýsti áhuga á nánara samstarfi ríkjanna, einkum við uppbyggingu þekkingar og tækni í sjávarútvegi, auk þess sem Maldíveyjar hafa sett sér stefnu um að nota í sem mestum mæli endurnýjanlega orkugjafa. Mikill áhugi væri á að líta til Íslands varðandi reynslu á þessum sviðum og því margir samstarfsfletir fyrir hendi. Forsætisráðherra kvað ýmsa möguleika á samstarfi um uppbyggingu þekkingar og tækni, bæði í orkumálum og sjávarútvegi, meðal annars með samstarfi í gegn um Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi á sviði jarðvarma og sjávarútvegs. Einnig var rætt um efnahagsmál ríkjanna beggja og mikilvægi alþjóðlegrar baráttu gegn loftslagsbreytingum.
Reykjavík 12. mars 2010