Hoppa yfir valmynd
12. mars 2010 Matvælaráðuneytið

Nr. 16/2010 - Skipting karfa í gullkarfa og djúpkarfa

Í Morgunblaðinu í fyrradag er birt heilsíðuauglýsing frá fyrirtækinu “Guðmundur Runólfsson hf.” þar sem hart er deilt á þá ætlan stjórnvalda að skipta stofnum karfa í gullkarfa og djúpkarfa og taka ekki við þá skiptingu mið af aflareynslu fyrirtækisins. Hér á eftir verður saga þessa máls rakin og sýnt fram á að allt hefur verið gert sem mögulegt er til að ná fram niðurstöðu í mál þetta sem byggir á faglegum sjónarmiðum.

Forsaga málsins er sú að frá árinu 1994 hefur Hafrannsóknastofnunin veitt aðskilda ráðgjöf fyrir annars vegar gullkarfa og hins vegar djúpkarfa. Lög um um stjórn fiskveiða hafa hins vegar fram að þessu eingöngu gert ráð fyrir að ákveða skuli heildaraflamark fyrir karfa sem eina tegund.

 

Að mati Hafrannsóknarstofnunar er hér um tvær aðskildar tegundir að ræða og hefur stofnunin væntanlega talið öll þessi ár að sameiginlegt aflamark leiði til aukinnar sóknar í þá tegund sem hagkvæmast er að sækja í hverju sinni og því fylgi aukin hætta á veiðum umfram afrakstursgetu. Í ráðgjöf sinni fyrir fiskveiðárið 2009/2010 ítrekar svo stofnunin enn og aftur fyrri ráðgjöf sína um að heildaraflamarki tegundanna verði haldið aðskildu.

 

Auknar kröfur markaða um að veiðistjórn sé í samræmi við vísindalega ráðgjöf kalla síðan til viðbótar eftir því að karfategundunum hér við land sé haldið aðskildum við ákvörðun heildaraflamarks.

 

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lýst því yfir að hann vilji fara eftir  tillögu Hafrannsóknastofnunar um að við ákvörðun heildaraflamarks verði teknar tvær aðskildar ákvarðanir fyrir gullkarfa og djúpkarfa. Ekki liggur annað fyrir en flestir, ef ekki allir, séu ráðherra sammmála hvað þetta varðar.  Í frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóns Bjarnasonar, til laga um stjórn fiskveiða sem nú liggur fyrir á Alþingi til 3. umræðu er því lögð til sú breyting að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði skylt að ákveða aðskilið heildaraflamark fyrir gullkarfa og djúpkarfa.

 

Þegar að svo háttar til í fiskveiðistjórnunarkerfinu að ákveðið er að skipta einni tegund í tvær, þarf jafnframt að taka upp skiptingu aflahlutdeildar á einstök skip. Það er þó vandasamt eins og nærri má geta. Starfshópur sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði 2008, sem í áttu sæti auk ráðuneytisins, fulltrúar Hafrannsóknastofnunar og LÍÚ, komst að þeirri niðurstöðu að hvert skip fái sömu aflahlutdeild í gullkarfa og djúpkarfa og það hefur nú í karfa. Yrði þannig aflahlutdeild í gullkarfa og djúpkarfa hin sama. Framangreint frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tekur mið af þessari tillögu starfshópsins.

 

Aflahlutdeildum í karfa var á sínum tíma úthlutað á grundvelli veiðireynslu í einni tegund. Frá þeim tíma sem úthlutunin átti sér stað hafa veiðar einstakra skipa þróast og breyst með ýmsum hætti. Að horfa til aflareynslu síðastliðinna þriggja ára er ekki eins einfalt og það kann að sýnast. Það kann að henta sumum að miða við þetta tímabil en öðrum ekki.

 

Það sem einkum skapar vanda við úthlutun, byggða á veiðireynslu, eru eftirfarandi atriði:

 

1.      Flutningur aflamarks og aflahlutdeilda á síðustu árum milli skipa geta valdið því að úthlutun byggð á veiðireynslu sl. þrú ár, væri mjög fjarri því að vera í samræmi við nýtingarmöguleika þess skips sem nú væri úthlutað veiðiheimildum.

 

2.      Skipting á grunni veiðireynslu yrði að byggja á gögnum, sem því miður í þessu tilviki eru ónákvæm og nær ónothæf sem grundvöllur úthlutunar að mati sérfræðinga. Hún væri byggð á löndunargögnum, sem eru víða ónákvæm því tegundunum hefur verið stjórnað sem einni einingu og sjálfsagt víða virst lítill tilgangur að halda vel utan um hana í hinu daglega amstri. Skiptingin þyrfti síðan helst að byggja á grunnvelli upplýsinga úr sýnatöku frá veiðisvæðum og skráningu í afladagbækur. Þó þessar skráningar gefi nokkuð áreiðanlegar niðurstöður út frá vísindlegu sjónarmiði, þá er breytileiki í nákvæmni færslna milli einstakra skipa því miður alltof mikill.

 

Ráðuneytinu var hins vegar vel kunnugur sá vandi sem af jafnri skiptingu myndi leiða og kynnti hann sérstaklega fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis þegar hún fékk frumvarpið til meðferðar. Í kjölfar þess bauð nefndin forsvarsmanni fyrirtækisins “Guðmundur Runólfsson hf.” sérstaklega að mæta á fund nefndarinnar og útskýra sitt mál. Enn var því á ný reynt að koma til móts við þann aðila sem augljósast var að yrði mjög óánægður með þá skiptingu sem lögð var til í frumvarpinu. Að hálfu nefndarinnar, með aðstoð ráðuneytisins, var lögð mikil vinna í þetta mál. Voru hagsmunaaðilar og eftirlitsstofnanir kvaddar til á nýjan leik til að fara yfir málið. Niðurstaða þeirrar vinnu var sú að meirihluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hefur lagt til eftirfarandi breytingar í nefndaráliti fyrir 3. umræðu:

 

“Meiri hlutinn leggur til nýja leið til útfærslu á skiptingu heildarafla karfa sem er sett fram í þeim tilgangi að koma til móts við sjónarmið og gagnrýnisraddir sem hafa bent á að sú skipting sem lögð er til í frumvarpinu geti komið þeim illa sem mest hafa gert út á aðra tegundina fram til þessa. Aflaheimildum í karfa er skipt í gullkarfa og djúpkarfa sem fyrir liggur að er brýnt, einkum af markaðsástæðum. Meiri hlutinn leggur til að öllum skipum sem áttu aflahlutdeild í karfa 1. febrúar 2010 sé gefinn kostur á því að fá allt að 12,5 lestum af gullkarfa og láta af hendi í stað þess sama magn af djúpkarfa. Í kjölfarið verður aflahlutdeild hvers skips í gullkarfa og djúpkarfa reiknuð að nýju og úthlutun á fiskveiðiárinu 2010/2011 fer fram á þeim grundvelli. Á þennan hátt er komið til móts við útgerðir sem nú stunda veiðar á gullkarfa en eiga þess tæplega kost að stunda veiðar á djúpkarfa. Skiptingin sem lögð er til grundvallar á milli gullkarfa og djúpkarfa er í sömu hlutföllum og koma fram í veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar fyrir fiskveiðiárið 2009/2010. Ráðherra er jafnframt veitt heimild til að setja reglugerð um nánari útfærslu á reiknigrunni samkvæmt ákvæði þessu og úthlutun aflahlutdeildar á grundvelli hans.”

 

Hér skal sérstaklega bent á reglugerðarheimild sem nefndin leggur til að ráðherra verði veitt um nánari útfærslu á reiknigrunni einmitt til þess að unnt verði að skoða sérstök tilvik sem upp kunna að koma við skiptinguna.

 

Það verður að teljast nokkuð óvenjulegt að málsaðilar beiti fyrir sig heilsíðuauglýsingum í dagblöðum til að leggja áherslu á sitt mál, sérstaklega í ljósi þeirrar forsögu sem hér hefur verið rakin og vegna þess mikla samráðs og vinnu sem stjórnvöld hafa lagt fram í málinu.

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta