Hoppa yfir valmynd
15. mars 2010 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Um skuldastöðu ríkissjóðs

Fréttatilkynning nr. 8/2010

  • Heildarskuldir ríkissjóðs í árslok 2009 svöruðu til 78% af vergri landsframleiðslu (VLF).
  • Hreinar skuldir ríkissjóðs (þ.e. skuldir að frádregnum peningalegum eignum) námu um 39% af VLF á sama tíma.
  • Á móti hreinum skuldum ríkissjóðs standa verulegar eignir svo sem í fjármála- og orkufyrirtækjum.
  • Nýlega staðfesti fjármálaráðherra stefnu um skuldastýringu fyrir ríkissjóð sem nær fram til ársins 2014.
  • Núverandi lausafjárstaða ríkissjóðs er trygg og stendur undir afborgunum fram á næsta ár.
  • Horfur um lánsfjáröflun ríkissjóðs eru góðar.

Nokkur umræða hefur verið síðustu daga um skuldastöðu og skuldastýringu ríkissjóðs. Fjármálaráðuneytið vill af því tilefni nota tækifærið og koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum um skuldastöðuna og þróun hennar:

Í kjölfar falls bankanna hafa heildarskuldir ríkissjóðs aukist úr 310 milljörðum króna (ma.kr.) árið 2007 í 1.176 ma.kr. í lok árs 2009. Heildarskuldir ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu voru því 78% í lok árs 2009.

Samkvæmt langtímaáætlum í ríkisfjármálum sem lögð var fyrir Alþingi s.l. haust er gert ráð fyrir að heildarafkoma ríkissjóðs verði í jafnvægi 2012 og að afkoman verði jákvæð 2013. Samkvæmt áætluninni munu skuldir fara lækkandi frá og með næsta ári.

Þegar litið er til þróunar á skuldastöðu er mikilvægt að horft sé til þess af hverju skuldaaukningin stafar. Þannig má rekja stærstan hluta hennar til fjárfestingar í eignum sem standa á móti þeim skuldum. Þannig nema erlendar skuldir ríkissjóðs 356 ma.kr. í loka árs 2009, en á móti þeim stendur gjaldeyrisvaraforði að fjárhæð 281 ma.kr. Hreinar erlendar skuldir eru því einungis 75 ma.kr.

Þá nema skuldir vegna endurreisnar á bankakerfinu um 186 ma.kr., en á móti þeim standa samsvarandi eignarhlutar og lánveitingar til bankanna.

Innlendar markaðsskuldir nema 625 ma.kr., en á móti þeim eru innstæður ríkssjóðs í Seðlabankanum að fjárhæð 164 ma.kr.

Ríkissjóður hefur beitt virkri skuldastýringu við fjármögnum ríkissjóðs og vinnur þar eftir skuldastýringarstefnu sem mótuð var á síðasta ári með ráðgjöf frá sérfræðingum  Alþjóðagjaldeyrissjóðsins auk annarra erlendra og innlendra sérfræðinga. Í henni eru sett fram helstu markmið og viðmið við skuldastýringu á næstu árum.

Lausafjárstaða ríkissjóðs er góð og voru innstæður ríkissjóðs í Seðlabankanum 164 ma.kr. um síðustu áramót. Ríkissjóður getur því endurfjármagnað lán að andvirði 130 ma.kr. sem eru á gjalddaga á árinu. Fjárþörf ríkissjóðs vegna hallareksturs hefur verið fjármögnuð að fullu á innlendum skuldabréfamarkaði sem er til marks um það traust sem fjárfestar bera til ríkisins.

Í töflunni hér að neðan má sjá eignir og skuldir ríkissjóðs í lok árs 2009. Skuldir ríkissjóðs skiptast í innlendar og erlendar skuldir. Peningalegar eignir eru veitt lán og innstæður.

Skuldir
2009
VLF%
Innlend lán
- Markaðsverðbréf
439
- Endurfjármögnun banka
186
- Önnur innlend lán
195
Erlend lán
- Erlend lán
356
Skuldir samtals
1.176
78%
 
Eignir
Innstæður og veitt lán
596
40%
 
Hreinar skuldir
580
39%

Fjármálaráðuneytinu, 15. mars 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta