Vistvæn innkaupastefna hefur þegar skilað árangri
Samkvæmt markmiðum ríkisstjórnarinnar verða umhverfisskilyrði sett í 60% útboða á vegum ríkisins á næsta ári og 80% útboða árið 2012. Þetta var meðal þess sem kom fram í ávarpi Svandísar Svavarsdóttur á ráðstefnu umhverfisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins um vistvæn innkaup sem fram fór fyrir skömmu.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra setti ráðstefnuna og síðan kynnti Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra stefnu ríkisins í vistvænum innkaupum. Umhverfisráðherra sagði að vistvæn innkaupastefna hins opinbera væri þegar farin að skila árangri. Það mætti til dæmis merkja á því að talsverður fjöldi fyrirtækja hefði sótt um umhverfisvottun Svansins hjá Umhverfisstofnun og ein helsta ástæðan sem nefnd er fyrir umsóknum er aukinn þrýstingur frá opinberum aðilum.
Í stefnu ríkisins um vistvæn innkaup eru sett fram fjögur mælanleg markmið sem áhersla verður lögð á til næstu fjögurra ára. Í fyrsta lagi áðurnefnt skilyrði um hlutfall útboða með umhverfisskilyrðum, í öðru lagi að þróaðir verði mælikvarðar um efnahagslegan og umhverfislegan ávinning vistvænna opinberra innkaupa, í þriðja lagi að þrjár lykilstofnanir ríkisins ljúki 1. stigi við innleiðingu vistvænna innkaupa fyrir 1. mars 2011 og í fjórða lagi að allar ríkisstofnanir (A hluta) ljúki 1. stigi við innleiðingu vistvænna innkaupa fyrir lok ársins 2012.
Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var Rikke Dreyer, verkefnisstjóri SKI, innkaupaþjónustu ríkis og sveitarfélaga í Danmörku. Gísli Marteinn Baldursson formaður umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar kynnti vistvæn innkaup hjá Reykjavíkurborg og Erla Friðriksdóttir bæjarstjóri í Stykkishólmi talaði um vistvæn innkaup út frá sjónarhorni minni sveitarfélaga.