Hoppa yfir valmynd
16. mars 2010 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Drög að frumvarpi til breytinga á fjarskiptalögum til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu drög að frumvarpi til breytinga á fjarskiptalögum nr. 82/2003. Þeir sem óska geta sent umsagnir sínar á netfangið [email protected] fram til sunnudags 21. mars.

Tilgangur frumvarpsins er þríþættur og eru helstu breytingar og nýmæli sem ráðgerð eru eftirfarandi:

Fyrsti kafli frumvarpsins lýtur að breytingum á fjarskiptaáætlun með það að markmiði að samræma áætlunargerð innan ráðuneytisins, sem og við aðra áætlanagerð hins opinbera, þ.m.t. til samræmis við Sóknaráætlun 2020.

Annar kafli frumvarpsins hefur að geyma breytingar á reglum um stjórnun og úthlutun tíðna, sem ætlað er að auka á hagkvæmni og skilvirkni stjórnun þessara gæða en unnið hefur verið að gerð reglugerðar um tíðniúthlutanir sem er á lokastigi. Auk þess eru innleidd eru í lögin ákvæði nýrrar tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2009/140/EB um breytingar á rammatilskipun og heimildatilskipun, að því leyti er varðar stjórnun og úthlutun tíðna. Er staðfestur yfirráðaréttur íslenska ríkisins yfir tíðnum og númerum og skýrt kveðið á um að heimildir til notkunar tíðna og númera feli aðeins í sér skilyrtan afnotarétt í tiltekinn tíma, en ekki eignarrétt af nokkru tagi.

Tíðnir og númer eru takmörkuð auðlind og eru umtalsverð verðmæti falin í réttindum til notkunar þeirra. Miklu máli skiptir að við úthlutun þessara gæða sé farið eftir hlutlægum og gagnsæjum sjónarmiðum á grundvelli fyrirfram ákveðinna reglna þannig að sem best verði tryggt að markmiðum um sanngirni og jafnræði sé náð. Að sama skapi þarf úthlutun tíðna að þjóna almannahagsmunum með tilliti til útbreiðslu og aðgengi að fjarskiptaþjónustu um landið allt. Skilvirk umsýsla með tíðnir ýtir undir tæknilega og efnahagslega framþróun í fjarskiptum og er því lagt til að dregið verði úr hömlum á tíðninotkun, m.a. er opnað fyrir möguleika á framsali eða leigu á tíðniréttindum. Um leið þarf að tryggja að stjórnun tíðna sé í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar en þær geta kveðið á um samræmda notkun tiltekinna tíðnisviða. Þarf þá að vera hægt að breyta eða jafnvel í einstaka tilfellum afturkalla tíðniréttindi og er því skilgreint hvenær slíkt getur komið til skoðunar.

Breytingar á tæknikafla

Í þriðja kafla frumvarpsins er að geyma breytingar á tæknikafla fjarskiptalaga og er ætlunin að einfalda stjórnsýslu, koma í veg fyrir réttaróvissu auk þess sem kveðið er á um nýmæli í þágu almannahagsmuna. Er annars vegar lagt til að settur verði á fót gagnagrunnur um þráðlausan sendibúnað. Mun slíkur gagnagrunnur koma að gagni við að kortleggja fjarskiptainnviði landsins og þar með nýtast við stefnumótun á sviði fjarskipta, auk þess sem hann auðveldar eftirlit, bæði almennt séð varðandi útbreiðslu og í einstökum tilfellum, til að mynda vegna truflana. Þá verður almenningi gert kleift með gagnagrunninum að kalla eftir upplýsingum um staðsetningu senda, m.t.t. umhverfissjónarmiða, en víða erlendis þekkist að almenningur hafi aðgang að slíkum gagnagrunni. Hins vegar er lagt til það nýmæli,  að beiðni Fangelsismálastofnunar og dómsmála- og mannréttindaráðuneytis, að fangelsisyfirvöldum sé gert kleift að trufla fjarskipti innan sérstaklega afmarkaðra svæða vegna framkvæmdar á öryggis- og refsigæslu, en þótt hefur vandasamt að koma í veg fyrir fjarskipti innan veggja fangelsa með öðrum hætti. Þá er kveðið á um að Póst- og fjarskiptastofnun hafi úrræði vegna truflana á fjarskiptum, sem stafa frá öðru en fjarskiptavirkjum, t.d. rafmagnsgirðingum, en í núverandi lögum getur Póst- og fjarskiptastofnun einungis aðhafst ef truflanir stafa frá fjarskiptavirkjum. Þá er að finna ákvæði um einfaldaða stjórnsýslu, en í ákveðnum tilvikum er talið rétt að í stað þess að gefin séu út leyfisbréf, sé heimilt að kveða á um tilkynningarskyldu, s.s. varðandi fjarskiptaleyfi leigubílstjóra.

Að lokum ber að nefna að frumvarpið hefur að geyma bráðabirgðarákvæði sem kveður á um að heimilt sé að taka gjald fyrir endurúthlutun tíðna. Ákvæðið gildir eingöngu ef um er að ræða endurúthlutun, en ekki ef tíðnunum verður úthlutað með útboði eða uppboði. Gjaldið er uppreiknað gjald miðað við upprunalegar heimildir.

Fyrirhugaður er í vikunni kynningarfundur fyrir fjarskiptaráð og minnt er á umsagnarfrest sem er til 21. mars næstkomandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta