Hoppa yfir valmynd
16. mars 2010 Matvælaráðuneytið

Nr. 17/2010 - Um úthlutun aflaheimilda í skötusel

Á vef Landssambands íslenskra útvegsmanna birtist á föstudag grein undir heitinu “Ábyrgar fiskveiðar eða vísvitandi ofveiði.” Er greinin hluti af ritröð Landssambands íslenskra útvegsmanna um veiðar á skötusel. Þessi grein á það sammerkt með annarri umfjöllun samtakanna, að reynt er að gera ótrúverðugt heimildarákvæði um veiðar á skötusel, sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun veita, verði frumvarp til laga um stjórn fiskveiða samþykkt á Alþingi. Kemur þetta skýrt fram í lok greinarinnar: “Verði ofangreint frumvarpsákvæði að lögum mun það valda orðspori Íslendinga miklu tjóni, enda fylgjast fiskkaupendur vel með því sem gerist í fiskveiðum okkar og fiskveiðistjórnun.”

Umrætt heimildarákvæði hljóðar svo: “Á fiskveiðiárunum 2009/2010 og 2010/2011 hefur ráðherra til ráðstöfunar, auk aflaheimilda sem úthlutað er á grundvelli laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, allt að 2.000 lestir af skötusel hvort fiskveiðiár."

Ráðuneytið vill af þessu tilefni taka fram eftirfarandi: Allar staðreyndir um þetta tímabundna heimildarákvæði varðandi skötusel koma m.a. fram í umræðum um frumvarpið á Alþingi og kynningu ráðuneytisins með sérstakri fréttatilkynningu sem er að finna á vef ráðuneytisins /frettir/frettatilkynningar/nr/9826 ásamt grein sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skrifaði og birtist í nokkrum blöðum í desember sl. http://www.bb.is/Pages/26?NewsID=141984 .

Það sem gerir það að verkum að ráðuneytið sér sig nú knúið til að grípa til andsvara er að grein þessi er rituð af stofnvistfræðingi hjá Landssamband íslenskra útvegsmanna.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason hefur við ýmis tækifæri, bæði í rituðu máli og á fundum m.a. með útgerðarmönnum, margítrekað að farið verði varlega þegar framangreint heimildarákvæði verður nýtt. Í tilvitnaðri blaðagrein, sem er frá því í desember segir ráðherra:

“Í þessu sambandi tiltek ég, að verði frumvarpið að lögum, mun væntanleg aflaaukning, sem alls ekki liggur fyrir hver yrði, metin af varfærni þannig að tryggt sé að ekki hljótist óbætanlegur skaði af. Ég mun að sjálfsögðu leita álits sérfræðinga m.a. umsagnar Hafrannsóknastofnunarinnar og ætla henni að meta sjálfstætt áhættuna af slíkri aukningu. Á sama hátt verða settar reglur um þessar veiðar sem tryggja góða umgengni við auðlindina.”

Tafla - Ráðgjöf, heildaraflamark og afli skötusels í tonnum, eftir fiskveiðiárum

Fiskveiðiár

A. Ráðgjöf Hafró

B. Ákvarðað heildaraflamark

Mismunur

A – B =

Afli

2001/02

Engin ráðgjöf

1.500

.......

1.101

2002/03

Óbreytt sókn

1.500

*261

1.363

2003/04

1.500

2.000

500

1.903

2004/05

1.500

2.000

500

2.420

2005/06

2.200

3.000

800

2.832

2006/07

2.200

3.000

800

2.672

2007/08

2.200

2.500

300

2.921

2008/09

2.500

3.000

500

3.400

2009/10

2.500

2.500

* mismunur heildaraflamarks og afla 2001/02

Eins og kemur fram í ofangreindri töflu hafa sjávarútvegsráðherrar á þessu árabili án undantekninga úthlutað mun meiri aflaheimildum í skötusel en ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar gerði ráð fyrir. Á fiskveiðiárunum 2003/2009 hafa þeir að meðaltali tekið ákvörðun um úthlutun á 600 tonnum umfram ráðgjöf, sem gerir 30% að jafnaði. Væntanlega hefur þetta verið gert vegna eindreginna tilmæla útgerða og talið óhætt þar sem ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar hefur þótt varfærin m.v. í hve mikilli sókn stofninn hefur verið. Athyglisvert er einnig í þessu samhengi að Landssamband íslenskra útvegsmanna lagði til sl. sumar við ráðherra, að heildaraflamark skötusels yrði 3.000 tonn eða 500 tonn yfir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar.

Stofnmæling botnfiska

Eins og sést á þessari mynd, sem fengin er úr gagnagrunni Hafrannsóknastofnunarinnar, þá hefur útbreiðsla skötusels tekið gríðarlegum breytingum undanfarinn einn og hálfan áratug eða svo. Líklegt er að breytingar á hitastigi sjávar ráði hér miklu. Eftir stendur síðan spurningin um innkomu þessa afar fullkomna ránfisks í lífríkið í kringum landið og hversu æskilegt það sé. Væntanlega mun Hafrannsóknastofnunin fylgjast vel með og efla rannsóknir á þessum merkilega fiski.

Til fróðlegs er hér gefinn tengill á norska heimasíðu þar sem fram koma áhugaverðar upplýsingar um skötuselinn og hegðun hans: http://www.fredrikmyhre.webs.com/apps/blog/show/2251047

Hér skal að endingu tekið fram, verði framangreint frumvarp að lögum, mun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, að fenginni ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar, taka mið af aflamarksúthlutunum forvera sinna og heildarveiði undanfarinna ára, við ákvörðun á því magni af skötusel sem leyft yrði að veiða samkvæmt ákvæðum frumvarpsins fyrir fiskveiðiárið 2009/10.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta