Nr. 18/2010 - Aukin gæði og fullnýting afla smábáta
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hélt fund í morgun með Arthuri Bogasyni, formanni Landssambands smábátaeigenda ásamt Sjöfn Sigurgísladóttur, forstjóra Matís ohf. og Sigurjóni Arasyni, verkfræðingi Matís ohf. Þar varð samkomulag um að Matís ohf. ynni greiningu á nýtingar- og gæðamálum smábátaútgerðanna í góðri samvinnu við Landsamband smábátaeigenda. Markmiðið er skýrt og það er að komið sé með allan afla að landi og jafnframt að ná fram hámarks nýtingu og gæðum hráefnisins að öðru leyti. Allar greinar smábátaútgerðanna verða með í þessari úttekt. Fjallað verður um grásleppuveiðar jafnt sem línuveiðar afkastamikilla hraðfiskbáta.
Miklir möguleikar eru eflaust hér á ferðinni og er skemmst að minnast samvinnu Landssambands smábátaeigenda og fyrirtækisins “Triton” um útflutning á grásleppu til Kína, sem stutt hefur verið af AVS-sjóðnum og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.
Einnig er vísað til þess að nýverið birti Matís skýrslu um “nýtingu sjávarafla” sem unnin var að tilstuðlan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Nú er verið að skipuleggja eftirfylgni með þeim atriðum sem þar komu fram í samvinnu við hlutaðeigandi.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tiltekur að þetta verkefni hefur mikla þjóðhagslega þýðingu og það er frábært að sjá hversu góðar viðtökur þessi áform hans fá, bæði hjá Samtökum fiskvinnslustöðva og Landssambandi smábátaeigenda.