Nr. 19/2010 - Samningafundi um stjórn makrílveiða lokið
Samningafundi um stjórn makrílveiða sem fram fór í Álasundi í Noregi, dagana 16.-18. mars 2010, er lokið. Markmið fundarins var að leita samkomulags um framtíðarstjórnun makrílveiða í Norðaustur-Atlantshafi, en eins og kunnugt er hefur ekki náðst samkomulag um heildarstjórnun veiðanna síðastliðin ár. Á fundinn mættu samninganefndir allra strandríkjanna, þ.e. Evrópusambandsins, Færeyja, Íslands og Noregs en auk þess var Rússum boðið til fundarins. Á fundinum fóru aðilar yfir mögulega framtíðarstjórn veiða, þar með talið skiptingu heildarafla milli ríkjanna en samkomulag um hlutfallslega skiptingu er forsenda fyrir því að heildstæð stjórnun veiðanna náist.
Enn ber mikið í milli aðila en áfram verður reynt að ná samkomulagi og því hefur verið ákveðið að viðræðum verði haldið áfram í Reykjavík dagana 19. og 20. apríl næstkomandi.