Hoppa yfir valmynd
19. mars 2010 Dómsmálaráðuneytið

Árlegur fundur með forstöðumönnum stofnana ráðuneytisins

Svipmynd frá forstöðumannafundi.
Svipmynd frá forstöðumannafundi.

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið bauð forstöðumönnum stofnana ráðuneytisins til árlegs fundar í gær, fimmtudaginn 18. mars 2010. Rekstrarumhverfi stofnana var í deiglunni á fundinum auk þess sem flutt voru ýmis erindi um mál er snerta starf þeirra stofnana er undir ráðuneytið heyra. Um 70 manns sóttu fundinn, en þetta er í sjötta sinn sem slíkur fundur er haldinn á vegum ráðuneytisins.

Ragna Árnadóttir í pontu.Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra flutti ávarp og fór yfir þau mál sem unnið er að í ráðuneytinu, kynnti frumvörp sem eru í vinnslu og sagði frá öðrum brýnum verkefnum. Jón Magnússon, skrifstofustjóri rekstrar- og fjármálaskrifstofu, fjallaði um rekstrarumhverfi stofnana í erindi sem hann kallaði Ný hugsun – nýtt verklag.

Þá flutti Halla Björg Baldursdóttir, verkefnastjóri í rafrænni stjórnsýslu í forsætisráðuneytinu, erindi undir heitinu Netríkið Ísland, Elín Sigrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri dómstólaráðs, kynnti nýja málaskrá héraðsdómstóla og Kári Erlingsson, rannsóknarlögreglumaður á Akureyri, sagði frá samvinnu lögregluembætta á Norðurlandi í fíkniefnamálum.

Svaraðu fyrir mig félagi! - Ný úrræði í símsvörun á krepputímum var heitið á fyrirlestri þeirra Önnu Birnu Þráinsdóttur, sýslumanns í Vík, og Hafsteins Jóhannessonar, skrifstofustjóra sýslumannsins á Selfossi, sem hann flutti fyrir hönd Ólafs Helga Kjartanssonar sýslumanns sem ekki átti kost á að sækja fundinn. Þar var sagt frá vel heppnuðu samstarfsverkefni embættanna þar sem sýslumannsembættið í Vík hefur tekið að sér símsvörun fyrir embættið á Selfossi og afgreiðir auk þess ákveðin erindi. Þá sagði Haukur Ingibergsson, forstjóri Fasteignaskrár Íslands, frá þjónustu og starfsfyrirkomulagi sameinaðrar tölvudeildar Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands.

Fundarstjóri var Þórunn J. Hafstein, settur ráðuneytisstjóri.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum