Hoppa yfir valmynd
19. mars 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands 2010

Ágætu starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands og aðrir gestir.

Á tíunda degi í starfi mínu sem umhverfisráðherra ávarpaði ég ársfund Náttúrufræðistofnunar, þ.e. í maí mánuði 2009. Á þeim tíma var ég þriðji ráðherra umhverfismála það árið en sagði að ef ég fengi eitthvað um það ráðið þá væri ég komin til lengri vistar í umhverfisráðuneytinu en tíðkast hefur hin síðari ár. Nú hér er ég enn og verð vonandi áfram því verkefnin eru mörg, ekki síst á sviði náttúrverndar, sem ég hyggst beita mér fyrir að nái fram að ganga og vinna að í góðri samvinnu við m.a. ykkur starfsmenn Náttúrfræðistofnunar.

Á þessu tæpa ári sem ráðherra umhverfismála hef ég haft tækifæri til að kynnast enn betur starfsemi Náttúrfræðistofnunar, því mikilvæga starfi sem þar er unnið í þágu náttúrunnar og okkar sem byggjum þetta land. Það hefur vakið sérstaka athygli mína að sjá að hve mikilli hugsjón og ástríðu þið vinnið ykkar starf.

Ég held að það séu fáar ríkisstofnanir sem geta státað að því að starfsmenn haldi áfram að sinna fræðastörfum sínum þrátt fyrir að vera komnir á hinn virðulega ellilífeyrisaldur og að þeir haldi starfsaðstöðu sinni til að vinna að rannsóknum í náttúrufræðum ugglaust sjálfum sér til mikillar ánægju en ekki síst til hagsbóta fyrir íslenska náttúru og samfélag. Ég vil því nota þetta tækifæri og þakka þeim sem hafa sýnt Náttúrufræðistofnun og náttúru Íslands svo mikla hollustu með því að halda áfram fræðistörfum sínum án þess að þiggja laun fyrir störf sín.

Á sama tíma og ég hef fengið að kynnast þessu mikilvæga starfi og hef kynnst mörgu fólki sem brennur af áhuga fyrir íslenskri náttúru og náttúruvernd hef ég áttað mig á því hversu veik staða náttúrunnar er í lögum og innan stjórnsýslunnar.

Í allt of langan tíma hefur náttúrunni verið vikið til hliðar fyrir framkvæmdum sem hafa verið ákvarðaðar á grundvelli skammtímasjónarmiða, gróðahyggju og sérhagsmuna. Maður hefði haldið að það hrun sem varð hér haustið 2008 hafi kennt okkur eitthvað og breytt viðhorfum stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og almennings. En því miður virðist svo ekki vera.

Það hefur ekki farið framhjá neinum þau heiftarlegu viðbrögð sem urðu við úrskurði mínum um að heimvísa máli um Suðvesturlínu aftur til Skipulagsstofnunar, af því að ég staldraði við, spurði spurninga og fór fram á að aflað væri frekari upplýsinga sem hægt væri að byggja upplýsta ákvörðun á. Ég hef verið ásökuð um hryðjuverk, að vera á móti hagvexti, að atvinnuleysi fólks á Suðurnesjum sé í boði umhverfisráðherra. Orðin hafa verið stór og óvægin en ég tel að með því að hafa staldrað við og spurt frekari spurninga - spurninga sem maður á að spyrja ætli maður að starfa í anda sjálfbærrar þróunar, hafi orðið til þess að umræðan um þessa tilteknu framkvæmd varð upplýstari og höfðu sjónarmið fræðimanna Náttúrufræðisstofnunar mikilvægt vægi í umræðunni. Þá fer það ekki á milli mála að það kveður við annan tón í umræðunni um þessa tilteknu framkvæmd sérstaklega hjá talsmönnum aðila vinnumarkaðarins. Á þeim bæ er meira að segja farið að tala um skynsamlega hagvaxtastefnu án þess að gengið væri á svig við „eðlilega náttúruverndarstefnu“. Hvað sem „eðlileg náttúruverndarstefna“ kann að þýða.

Þetta snýst nefnilega um hvaða stöðu við viljum að náttúran og náttúruvernd hafi í umræðunni. Sem umhverfisráðherra og þar af leiðandi talsmaður náttúrunnar hef ég reynt að skapa það rými sem náttúruvernd þarf í hinni pólitísku umræðu. Til að mynda með því að horfa ekki á einstök verkefni heldur með því að minna á heildarmyndina í umræðunni. Það að náttúruvernd og umræðan um hana fái rými virðist hins vegar ógna þeim sem fara með völdin.

Því miður er það svo að lagaumhverfið og stjórnsýslan hefur ekki verið í þágu náttúrverndar. Þessu þarf að breyta. Það má til að mynda spyrja sig hver sé tilgangur laga um mat á umhverfisáhrifum eftir að þeim var breytt eftir úrskurð Skipulagsstofnunar sem lagðist gegn framkvæmdinni við Kárahnjúka. Hver er tilgangurinn með því að setja fyrirhugaðar framkvæmdir í umhverfismat ef búið er að ákveða að farið verið í tiltekna framkvæmd? Ákvörðun sem er tekin áður en það liggur fyrir hver áhrifin verða á náttúruna og samfélagið. Mat á umhverfisáhrifum hefur í það minnsta aldrei orðið til þess að hætt hafi verið við stórframkvæmd.

Við hljótum að staldra við og spyrja hvernig ætlum við að tryggja heildarsýnina áður en ákvörðun er tekin um framkvæmd, hvort heldur sú framkvæmd er íbúabyggð, virkjun, eða vegagerð. Heildarsýn sem byggir á sjálfbærri þróun þar sem raddir náttúru, umhverfis og samfélags hafa vægi rétt eins og efnahagslegir þættir.

Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar þarf að vera leiðarljós í allri stefnumörkun og ákvarðanatöku ekki síst núna í uppbyggingu atvinnulífsins. Þær ákvarðanir snúast nær undantekningalaust um nýtingu auðlinda, hvort heldur það er land, orka, vatnsföll eða fiskur. Sjálfbær þróun er því forsenda þess að við getum tryggt atvinnu og búsetu hér á landi fyrir okkur og komandi kynslóðir. Hvernig við umgöngumst náttúruna og aðrar auðlindir er okkar prófsteinn. Mannfólkið byggir tilveru sína á náttúrunni en náttúran þarf ekki á manninum að halda.

Góðir gestir,

Ríkisstjórnin leggur áherslu á að náttúruvernd verði hafin til vegs og staða hennar innar stjórnarráðsins verði styrkt til muna. Þetta er ærið verkefni og ég hef lagt ríka áherslu á það í umhverfisráðuneytinu að náttúruverndarmálin verði sett í forgang.

Ég vil nefna nokkur af þeim verkefnum sem þegar eru hafin og eru forgangsmál hjá ráðuneytinu.

Hafin er endurskoðun náttúruverndarlaga sem á að ljúka á þessu ári. Gert er ráð fyrir að lagt verði fram nýtt frumvarp á Alþingi eigi síðar en í upphafi árs 2011.

Þá er hafin skoðun á reglugerðum sem setja átti samkvæmt núgildandi náttúruverndarlögum, en hefur að einhverjum ástæðum ekki verið gert. Má þar nefna reglugerð um innflutning, ræktun og dreifingu lifandi lífvera.

Á ári líffræðilegrar fjölbreytni hef ég skipað starfshóp sem hefur það hlutverk að ganga frá tíma- og áfangaskiptri framkvæmdaráætlun á grundvelli stefnumörkunar um líffræðilegan fjölbreytileika og skipta verkefnum á milli ráðuneyta. Á starfshópurinn að skila tillögum til mín eigi síðar en 1. júlí nk.

Hafin er vinna við að undirbúa aðgerðir gegn útbreiðslu ágenga tegunda en um næstu mánaðarmót mun starfshópur um aðgerðir gegn útbreiðslu lúpínu skila tillögum til mín. Verkefni starfshópsins er að vinna tillögur um aðgerðir til að fjarlægja lúpínu á þeim svæðum þar sem hún er talin óæskileg og ógn við annað umhverfi. Þessi vinna er aðeins upphaf að þeim aðgerðum sem grípa þarf til til að koma í veg fyrir útbreiðslu ágengra tegunda.

Framkvæmd og innleiðing náttúruverndaráætlunar hefur verið til sérstakrar skoðunar í umhverfisráðuneytinu en ég hef verið mjög hugsi yfir því hversu illa gengur að ná fram markmiðum hennar. Frá því í haust hefur starfshópur unnið að því að skilgreina framkvæmd áætlunarinnar með það að markmiði að gera hana skilvirkari. Munu tillögur liggja fyrir á næstu vikum.

Náttúruvernd strandsvæða og verndun svæða í sjó er eitt af áherslumálum ríkisstjórnarinnar. Nýlega skipaði ég starfshóp sem á að gera úttekt á lögum um vernd Breiðafjarðar en starfshópnum er ætlað að skoða hvort framkvæmd laganna endurspegli tilgang þeirra og hvort ástæða sé til að fara út fyrir núverandi fyrirkomulag í lögum með það að markmiði að náttúruvernd og verndaraðgerðir verði í samræmi við breyttar áherslur í náttúruvernd frá því að lögin voru sett.

Að lokum vil ég nefna þau friðlýsingarverkefni sem ég legg mikla áherslu á en þau eru stækkun friðlands í Þjórsárverum og friðlýsing Gjástykkis. Að auki er unnið að mörgum öðrum verkefnum sem tengjast náttúruvernd og ekki gefst tími hér til að fara yfir.

Góðir gestir,

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka starfsmönnum Náttúrufræðistofnunar Íslands fyrir góða samvinnu og þátttöku ykkar í ýmsum starfshópum á vegum umhverfisráðuneytisins og sérstaklega vil ég þakka fyrir samstarfið í tengslum við ljósmyndasýninguna „Áhrif loftslagsbreytinga á náttúru Íslands.“

Mig langar í lokin að vitna til orða Nóbelsskáldsins okkar Halldórs Laxness í Höll sumarlandsins.

„Hann var viss um að eins og náttúran var hámark allrar tignar og fegurðar, þannig væri hún einnig hámark alls mannkærleika og göfuglyndis, ekki síst þar sem hann var búinn að yrkja um hana lof, nei hann gat ekki ímyndað sér að hún léti úngt og elskandi skáld vanhaga um neitt upp frá þessu“.

Þessi orð sem Nóbelsskáldið ljéði Ólafi Ljósvíkingi Kárasyni ættu að vera okkur öllum hvatning til að varðveita og virða íslenska náttúru og tryggja þannig afkomu og yrkisefni framtíðar skálda.

Takk fyrir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta