Hoppa yfir valmynd
19. mars 2010 Matvælaráðuneytið

Nr. 20/2010 - Meintur ólöglegur útflutningur á hvalaafurðum frá Íslandi

Vegna frétta um meintan ólöglegan útflutning á hvalaafurðum hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið kannað þau tilvik sem vísað er til og gögn eru um á vef Hagstofu Ísland (www.hagstofa.is).

Við eftirgrennslan um meintan útflutning á hvalmjöli til Danmerkur kom í ljós að umrætt magn, 775 kíló í janúar 2009 og 22.750 kíló í mars 2009, var fiskimjöl sem vegna mistaka í tollskýrslugerð verið skráð á tollnúmer fyrir hvalmjöl. Viðkomandi fyrirtæki hefur nú leiðrétt mistökin.  Hagstofa Íslands mun í framhaldinu leiðrétta þetta á vef sínum þann 31. mars n.k. þegar endurskoðaðar lokatölur fyrir útflutning 2009 liggja fyrir. Íslensk yfirvöld munu einnig taka málið upp við yfirvöld í Danmörku.

Í febrúar 2010 var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti tilkynnt að íslenskt útflutningsfyrirtæki hefði flutt út 250 kíló af hrefnukjöti til Lettlands. Kjötinu hefði fylgt íslenskt CITES útflutningsvottorð eins og lög segja fyrir um. Hrefna er hjá CITES (alþjóðasamningi um verslun með dýr í útrýmingarhættu) skráð á Viðauka I, sem hefur í för með sér miklar hömlur á alþjóðaverslun. Ísland hefur gert athugasemd við þessa listun fyrir sína hönd og er því ekki bundið reglum um verslun með hrefnu samkvæmt Viðauka I. Ísland hefur þó að eigin frumkvæði fylgt reglum sem gilda um tegundir á Viðauka II þegar kemur að verslun með hvalafurður. Reglur CITES um verslun með tegundir á Viðauka II gera kröfu um að útflutningsríki gefi út CITES-útflutningsvottorð, en engin lagaskilda er fyrir útflutningsland að krefjast innflutningsleyfis.

Engu að síður var haft samband við íslenska útflytjandann og honum tjáð að Lettland hefði ekki gert athugasemd við listun hrefnu á Viðauka I og þarlendum yfirvöldum óheimilt að  gefa út innflutningsvottorð fyrir farminum. Þar sem sendingin var farin úr land hafði útflytjandi samband við kaupandann úti og lét hann vita af þessu.

Í framhaldinu hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti verið með í athugun hvaða leiðir séu færar til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig og mun verða gripið til viðeigandi ráðstafana á næstunni. 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta