Forsætisráðherra heimsótti í dag samhæfingar- og stjórnstöð almannavarna og aðgerðarmiðstöðina að Hellu
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra heimsóttu í dag samhæfingar- og stjórnstöð almannavarna í Skógarhlíð vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Þeir Rögnvaldur Ólafsson verkefnastjóri og Ágúst Gunnar Gylfason kynntu ráðherrunum aðgerðir almannavarna frá því að eldgosið hófst og Kristín Vogfjörð jarðeðlisfræðingur fór yfir upplýsingar um gossvæðið og mögulegar afleiðingar eldgossins miðað við sprungustefnu eldstöðvarinnar og skjálftavirkni. Þá var einnig kynnt framkvæmd rýmingaráætlana á svæðinu. Halldór B Nellett aðgerðarstjóri Landhelgisgæslu Íslands greindi frá viðbúnaði Landhelgisgæslunnar. Í tengslum við heimsóknina í samhæfingar- og stjórnstöðina heimsóttu ráðherrarnir fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra, vöktunarstofu Neyðarlínunnar og Vakstöð siglinga.
Að lokinni heimsókn í samhæfingar- og stjórnstöðina héldu ráðherrarnir að aðgerðarmiðstöðinni að Hellu þar sem Kjartan Þorkelsson sýslumaður og lögreglustjóri á Hvolsvelli og Víðir Reynisson deildarstjóri almannavarna ríkislögreglustjóra ásamt fulltrúum Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Rauða krossins greindu frá störfum aðgerðarstjórnar og framkvæmd rýmingaráætlana og takmarkana á umferð um svæðið. Í þeirri heimsókn kynnti Kjartan Þorkelsson sýslumaður hvernig viðbragðsáætlanir vegna náttúruhamfara hafi verið kynntar fyrir íbúum á svæðinu að undanförnu og hversu vel sá undirbúningur hafi skilað sér við framkvæmd áætlananna nú. Að lokum heimsóttu ráðherrarnir lögreglustöðina á Hvolsvelli.
Ráðherrarnir létu í ljós ánægju sína með hversu vel hefur verið staðið að verki í góðri samvinnu allra sem hlut eiga að máli.
Reykjavík, 21. mars 2010