Ávarp á Degi vatnsins
Hafdís Gísladóttir aðstoðarmaður ráðherra flutti eftirfarandi ávarp í forföllum ráðherra á ráðstefnunni Betra vatn til framtíðar sem haldin var á Degi vatnsins 22. mars 2010.
Fundarstjóri og ágætu ráðstefnugestir.
Dagur vatnsins hefur verið haldinn hátíðlegur 22. mars ár hvert síðan 1993. Þema dagsins að þessu sinni er hreint vatn fyrir heilbrigðan heim. Erindið er brýnt eins og Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, bendir á í erindi af þessu tilefni. Það er staðreynd að fleiri deyja ár hvert vegna skorts á hreinu vatni en af völdum hvers kyns ofbeldis, um einn milljarður fólks neyðist til að notast við óhreint vatn til daglegra verka og um 3.900 börn deyja dag hvern vegna þess að þau hafa ekki aðgang að hreinu vatni.
Betri nýting vatns er því rauður þráður í öllum helstu markmiðum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett sér um bættan heim. Bætt heilsa, auknar lífslíkur mæðra og barna, fæðuöryggi, valdefling kvenna, sjálfbær þróun og aðlögun að loftslagsbreytingum, öll þessi markmið tengjast á beinan hátt bættri umgengni við vatnsauðlindina. Enda bera formlegar samþykktir og áætlanir alþjóðasamfélagsins þess merki. Í upphafi þessa árþúsunds samþykktu þjóðir heims Þúsaldaryfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna með átta markmiðum sem stuðla áttu að mannsæmandi og sjálfbærri framtið fyrir alla íbúa Jarðar. Eitt markmiðanna er að lækka um helming hlutfall þeirra sem ekki hafa aðgang að hreinu drykkjarvatni á tímabilinu 1990 til 2015. Sem betur fer hafa þjóðir heims náð nokkrum árangri á þessu sviði síðan markmiðið var sett, sér í lagi hefur ástandið þróast í rétta átt í Kína og Indlandi. En heimsbyggðin á enn langt í land og vonandi ber okkur gæfa til að sigrast á þessum vanda.
Í áramótaávarpi sínu fjallaði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra um þá gæfu sem Íslendingar njóta í formi hins hreina og tæra vatns. Hún sagði okkur geta verið þakklát fyrir þá dýrmætu auðlind sem fólgin væri í vatninu okkar, enda væri vatnsskortur ein helsta orsök fátæktar og sjúkdóma í heiminum. Hatrammar deilur ættu rætur í baráttu um aðgang að vatni og forsætisráðherra vakti athygli á spám þess efnis að stríðsátök nýhafinnar aldar myndu fremur snúast um vatn en olíu. Þess vegna þyrftum við Íslendingar að beina sjónum okkar að því hvernig við gætum nýtt ferskvatnslindir Íslands í þágu umheimsins. Ég tek heilshugar undir þessi orð Jóhönnu og vil nýta þetta tækifæri til að hvetja ykkur sem hingað eruð komin, þar á meðal helstu sérfræðingar þjóðarinnar á sviði vatnsnýtingar og vatnsgæða, til að hefja umræðu um það hvernig við getum brugðist við þessari tímabæru hvatningu forsætisráðherrans.
Hér á landi hefur umræðan um vatnsgæði aukist jafnt og þétt. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að vatnatilskipun Evrópusambandsins verði innleidd og að lokið verði við frumvarp til nýrra vatnalaga sem tryggi verndun og sjálfbæra nýtingu ferskvatns og skilgreini aðgang að vatni sem grundvallarmannréttindi. Nú er stefnt að því að samþykkja þetta frumvarp á Alþingi í vor. Það yrði gríðarlega mikilvæg framför hvað varðar vernd vatns og sjálfbæra nýtingu þess. Markmiðið með frumvarpinu er að hindra frekari rýrnun vatnsgæða og að bæta ástand vatns þar sem það er mögulegt samfara nýtingu. Með lögunum verður stjórnkerfinu gert að nálgast málefni vatnsins með heildstæðum hætti og koma á miðlægri greiningu upplýsinga um vatnsumhverfið. Einnig er þeim ætlað að tryggja víðtæka upplýsingagjöf og samráð við almenning á þessu sviði. Þær Sigríður Auður Arnardóttir skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu og Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, munu fjalla ítarlega um frumvarpið og tilskipunina hér á eftir.
Kæru ráðstefnugestir.
Bandaríski stjórnmála- og vísindamaðurinn Benjamin Franklin sagði á sínum tíma að það væri ekki fyrr en vatnslindirnar þornuðu upp sem við áttuðum okkur á verðmæti vatnsins. Þetta er ágætis áminning fyrir þjóð sem býr við svo mikið framboð af vatni að hún telur gúmmístígvél meðal helstu framfaramála 20. aldarinnar. Við eigum svo mikið af vatni að okkur hættir til að álíta vatnsauðlindina sem sjálfsögð gæði. En allur er varinn góður. Bergen í Noregi hefur verið einna þekktust fyrir miklar rigningar, enda rignir þar 275 daga á ári. Heimamenn segja brandarann af ferðamanninum sem gekk um götur Bergen og spurði dreng sem varð á vegi hans hvort það stytti einhvern tíma upp í Bergen og drengurinn svaraði því til að hann vissi það ekki því að hann væri bara 12 ára. En þurrasti vetur síðan 1949 hefur gert það að verkum að nú er að verða vatnslaust í Bergen, sem er svona eins og það verði kaffilaust í Brasilíu. Þetta er áminning um það að enginn hefur efni á að umgangast vatnsauðlindina sem sjálfsagðan hlut. Ég vona að íslenska þjóðin sé ekki gripin værukærð af því tagi. En það er sumt í þjóðmálaumræðunni sem mér finnst benda til þess. Til að mynda hefur umræðan um fyrirhugaðar framkvæmdir við Suðvesturlínu um vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins fengið furðu litla umfjöllun á meðal almennings og fjölmiðla og á vettvangi stjórnmálanna, þrátt fyrir viðvaranir sérfræðinga um þá hættu sem að vatnsauðlindinni stafar af völdum þessara framkvæmda. Ég held að fjölmiðlar hafi fjallað meira um niðurskurð á fjárveitingum til refaveiða á síðasta ári heldur en þessar fyrirhuguðu framkvæmdir innan vatnsverndarsvæðis höfuðborgarsvæðisins. Það er sérkennileg áhersla ef tekið er mið að þeim hagsmunum sem í húfi eru. Líklega þurfum við að taka samband okkar við vatnsauðlindina til róttækrar endurskoðunar, kæruleysið þarf að víkja fyrir virðingu og varúð. Vonandi reynist þessi ráðstefna hér í dag mikilvægt innlegg í þá endurskoðun.