Sameining Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar samþykkt
Sameining Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar var samþykkt í kosningum í sveitarfélögunum síðastliðinn laugardag. Sameiningin mun taka gildi í framhaldi af sveitarstjórnarkosningunum 29. maí.
Með þessari sameiningu verða sveitarfélög landsins 76 að tölu. Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segist fagna niðurstöðunni. ,,Ég óska íbúum sveitarfélaganna til hamingju með þennan áfanga og er sannfærður um að hér verður til öflugra sveitarfélag sem stendur enn betur undir allri þjónustu við íbúa sína. Þetta er enn eitt skrefið í eflingu sveitarfélaga landsins. Ég vona að við eigum eftir að stíga mörg slík skref á næstu misserum í því átaki til eflingar sveitarfélaga sem ráðuneytið vinnur nú að í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga,” sagði ráðherrann.
Í Hörgárbyggð greiddu 149 atkvæði með sameiningu og 12 greiddu atkvæði gegn henni. Einn seðill var auður. Með öðrum orðum voru 92% þeirra sem kusu fylgjandi sameiningu en 7,4% andvíg og 0,6% skilaði auðu. Af þeim sem tóku afstöðu voru 92,5% fylgjandi og 7,5% andvíg sameiningu. Á kjörskrá í Hörgárbyggð voru 309, þar af kusu 162, sem er 52,4% kjörsókn.
Í Arnarneshreppi greiddu 57 atkvæði með sameiningunni og 40 voru andvígir. Þrír seðlar voru auðir. Þar voru hlutfallstölurnar þessar: 57% þeirra sem kusu voru fylgjandi sameiningu, 40% andvíg og 3% skilaði auðu. Af þeim sem tóku afstöðu voru 58,8% fylgjandi og 41,2% andvíg sameiningu. Á kjörskrá í Arnarneshreppi voru 126, þar af kusu 100, sem er 79,4% kjörsókn.
Sameining sveitarfélaganna mun taka gildi við upphaf nýs kjörtímabils sveitarstjórna, sem er 12. júní næstkomandi. Í sveitarstjórnarkosningunum 29. maí verður því kosið til sveitarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi.