Hoppa yfir valmynd
24. mars 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á málþingi um jarðminjagarða á Íslandi

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp á málþingi um jarðminjagarða á Íslandi sem haldið var í Salnum í Kópavogi 24. mars 2010.

Góðir áheyrendur,

Það er mér sönn ánægja að fá tækifæri til að flytja ávarp hér á málþingi um jarðminjagarða á Íslandi. Það er óhætt að segja að allt Ísland sé einn allsherjar jarðfræðigarður og minnir gosið við Eyjafjallajökul okkur óneitanlega á uppruna landsins og staðsetningu. Það efast varla nokkur Íslendingur um mikilvægi jarðfræðinnar hér á landi og hvaða þýðingu Ísland hefur jarðfræðilega í heiminum.

Ég fagna þessari þróun í náttúruvernd sem endurspeglast í umræðunni um Eldfjallagarð á Reykjanesskaga og tel hann falla vel að markmiðum ríkisstjórnarinnar um að náttúrvernd verði hafin til vegs og staða hennar styrkt til muna. Verkefni sem þetta eykur til muna líkurnar á því að okkur takist að skapa náttúruvernd þá stöðu sem henni ber á Íslandi. Við megum ekki gleyma því að um 80% ferðamanna sem heimsækja Ísland koma í þeim tilgangi að sjá og upplifa náttúru Íslands. Okkur ber því skylda til að varðveita og tryggja góða umgengni við þá einstöku náttúru sem okkur hefur verið falin umsjón með. Ekki aðeins fyrir ferðamenn heldur fyrir komandi kynslóðir sem eiga rétt á því að fá að upplifa og njóta þeirra náttúru sem við höfum í dag.

Það er löngu tímabært að jarðfræði landsins fái notið þeirrar athygli sem hún á skilið. Það er einkar ánægjulegt að sjá að sveitarfélög landsins eru í auknu mæli að gera sér grein fyrir mikilvægi jarðfræðilegra minja landsins og þýðingu þess að vernda jarðfræðilega mikilvæg svæði með þeim hætti sem hér er verið að kynna.

Þótt Sameinuðu þjóðirnar hafi tileinkað árið 2010 líffræðilegri fjölbreytni og verndun hennar er ekki þar með sagt að við þurfum ekki að horfa til fleiri þátta í náttúrufari landsins þetta árið. Jarðfræðileg fjölbreytni hér á landi er ekki síður mikilvæg. Það má segja að fyrstu skipulegu skrefin í að skilgreina og flokka jarðfræðiminjar og að meta verndargildi þeirra hafi verið tekin með vinnu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndar ríkisins, nú Umhverfisstofnunar, við undirbúning fyrstu Náttúruverndaráætlunar árið 2002 sem birt var í skýrslunni „Verndun jarðminja á Íslandi“. Í þessari skýrslu er bent á 19 mikilvægar jarðminjar sem talin var ástæða til þess að friðlýsa og eru fimm af þessum svæðum á Reykjanesskaganum.

Eitt þessara svæða, Reykjanes og Reykjanestá, er á Náttúruverndaráætlun, en mjög hægt hefur gengið að undirbúa friðlýsingu þess, sérstaklega vegna nýtingar jarðhita á svæðinu. Í nýrri náttúruverndaráætlun er eitt mikilvægasta jarðfræðisvæði landsins, þ.e. Langisjór ásamt Fögrufjöllum og Grænafjallgarði og er fyrirhugað að svæðið verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Í skipulagstillögum fyrir Skaftárhrepp er auk þess gert ráð fyrir að mest allt svæðið vestan Langasjávar að Tungná verði tekið inn í þjóðgarðinn, allt suður að Mýrdalsjökli.

Segja má að nýlegar skýrslur Náttúrufræðistofnunar Íslands um háhitasvæði landsins sé næsti áfangi í þessu starfi þar sem m.a. hefur verið lagt mat á jarðfræðiminjar á háhitasvæðum og lagt mat á verndargildi þessara svæða. Í kjölfarið leitaði ég samþykkis ríkisstjórnarinnar um að hafinn verði undirbúningur að friðlýsingu Gjástykkis í Mývatnssveit. Gjástykki er að mati margra eitt af merkilegri jarðfræðisvæðum landsins og grundvöllur skilnings okkar á landrekskenningunni frá því í Mývatnseldunum á áttunda áratug síðustu aldar. Með friðlýsingu þessara svæða má segja að verulega muni bætast við friðun jarðfræðiminja hér á landi.Stofnun jarðfræðigarða er mikilvæg viðbót við starf að náttúruvernd og frábær leið til þess að virkja áhuga sveitarstjórnarmanna, almennings og ferðamanna á mikilvægi jarðfræði og jarðfræðilegra minja.

Gríðarleg ásókn hefur verið í mörg jarðminjasvæði einkum til jarðhitavirkjana, efnistöku, vegagerðar o.fl þátta sem valda röskun á svæðunum. Fyrirbæri sem eru algeng hér á landi geta verið sjaldgæf á heimsvísu og er áríðandi að við gerum okkur grein fyrir mikilvægi slíkra svæða og þýðingu þeirra í heiminum, áður en það verður of seint. Á síðasta ári skipaði ég starfshóp til að endurskoða lög um náttúruvernd og er gert ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki á þessu ári og að frumvarp til náttúruverndarlaga verði lagt fram í upphafi árs 2011. Í þessari endurskoðun hefur verið lögð áhersla á að verndun jarðminja verði gerð góð skil og að lagaleg staða jarðminja verði styrkt til muna í lögunum.

Hugsanlega þarf að auka kortlagningu jarðminja og leggja áherslu á flokkun þeirra og mat á verndargildi þannig að sjaldgæfar og mikilvægar jarðminjar glatist ekki vegna skorts á yfirsýn og þekkingu. Við mat á verndargildi er mikilvægt að tillit sé tekið til allra þátta og vægi þeirra vegið þannig að sérstakir eða einstakir staðir, þótt þeir séu fábreyttir eða skarti fáum mæligildum, geti talist hafa hátt verndargildi. Hugsanlegt er að mosavaxin hraun, einstaka háhitasvæði eða hverasvæði geti fallið í slíkan verndarflokk og þurfi að skoðast sérstaklega.

Góðir gestir,

Í erindum hér á eftir verða reifaðar hugmyndir og undirbúningur að stofnun jarðfræðigarða hér á landi og hvernig reynsla annarra ríkja af þeim hefur verið. Það verður fróðlegt að heyra hvernig jarðminjagarðar geta nýst samhliða friðlýstum svæðum til þess að styrkja verndun jarðminja og hvernig þeir geta styrkt verndun utan friðlýstra svæða og stuðlað að vistvæni og sjálfbærri nýtingu jarðminja.

Litið hefur verið á ferðaþjónustu sem þá atvinnugrein sem mest sóknarfæri felist í við endurreisn íslensks efnahagslífs. Ég nefndi hér fyrr náttúru Íslands helstu ástæðu komu erlendra ferðamanna. Forsenda þess að okkur farnist að nýta þetta sóknarfæri er að okkur takist að vernda einstaka náttúru Íslands sem ekki síst felst í jarðminjum hennar og tryggja að ekki verði gengið á þolmörk hennar. Verkefnið er því samvinna fræðimanna á sviði náttúruvísinda, ferðaþjónustu og landeiganda, samvinna sem verður að byggja á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.

Ég vona að þetta málþing verði til þess að færa okkur nær þessum markmiðum sem við öll stefnum að í þágu íslenskrar náttúru sem við er bundin órjúfanlegum böndum.

Góðar stundir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta