Starfshópi falið að gera tillögur um breytingar á opinberu réttarfari er hraði málsmeðferð án viðbótarfjárveitinga
Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra hefur skipað starfshóp sem ætlað er að gera tillögur að breytingum á opinberu réttarfari og réttarreglum er miða að því að draga úr óþarfa umstangi, hraða málsmeðferð og auka afköst án viðbótarfjárveitinga. Í starfshópnum eiga sæti þau Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari, sem jafnframt er formaður, Eiríkur Tómasson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl. og Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.
Starfshópurinn er meðal annars settur á laggirnar til að sporna við því að aukinn málafjöldi á niðurskurðartímum leiði til þess að mál hlaðist upp í refsivörslukerfinu en ríkissaksóknari og fleiri ákærendur hafa vakið athygli á þeim vanda sem við er að etja og bent á nokkur atriði sem gætu horft til bóta.
Hópnum er m.a. falið að kanna hvort auka mætti heimildir ákæruvaldsins til að sætta mál í ákveðnum málaflokkum, eftir atvikum samhliða því að setja ítarlegri reglur um kröfur til handhafa ákæruvalds. Þá er nefndinni falið að huga að því að skilgreina farveg fyrir minni háttar mál sem aðeins kalla á minni háttar rannsóknir. Hefur hópurinn einnig frjálsar hendur til að gera tillögur um hvaðeina sem leitt getur til aukinnar skilvirkni í refsivörslukerfinu þar sem brýnt er að brot séu rannsökuð og ákært sé vegna þeirra innan ásættanlegra tímamarka.
Sú framtíðarsýn sem ráðuneytið vill stefna að er að einföld sakamál séu afgreidd því sem næst tafarlaust, eftir því sem tillit til réttaröryggis leyfir. Ábendingum til starfshópsins má koma á framfæri í gegnum netfangið [email protected].