Úttektir á sjálfsmatsaðferðum grunnskóla haustið 2009
Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 segir að hver grunnskóli skuli meta með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs. Matið á að tengjast markmiðum skólanámskrár og skulu upplýsingar um framkvæmd og umbætur birtar opinberlega. Í lögunum segir jafnframt að mennta- og menningarmálaráðuneytið skuli m.a. með sjálfstæðri gagnaöflun afla upplýsinga um framkvæmd laganna.
Í eldri lögum um grunnskóla nr. 66/1995 voru ákvæði þess efnis að sérhverjum skóla bæri að innleiða aðferðir til að meta skólastarfið og að á fimm ára fresti ætti menntamálaráðuneytið að taka út sjálfsmatsaðferðir skóla. Ákvæði um úttektir á sjálfsmatsaðferðum grunnskóla komu fyrst til framkvæmda haustið 2001 og stóð fyrsta umferð úttekta til vors 2003. Ráðuneytið lét gera úttektir á sjálfsmatsaðferðum í öllum grunnskólum sem þá voru 184 talsins. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að einungis í 24 skólum voru uppfyllt að öllu leyti bæði viðmið ráðuneytisins um sjálfsmatsaðferðir og framkvæmd sjálfsmats. Í 118 skólum reyndust sjálfsmatsaðferðirnar ófullnægjandi.
Önnur umferð úttekta hófst í febrúar 2007 og voru gerðar úttektir á sjálfsmatsaðferðum 48 skóla það ár. Sjálfsmatsaðferðir 64 skóla til viðbótar voru teknar út árið 2008. Árið 2009 voru teknar út sjálfsmatsaðferðir í 59 skólum víðsvegar af landinu og liggja niðurstöður nú fyrir. Einungis í 12 skólum voru uppfyllt bæði viðmið ráðuneytisins um sjálfsmatsaðferðir og framkvæmd sjálfsmats en í 29 skólum voru ófullnægjandi sjálfsmatsaðferðir.
Þeir 12 skólar þar sem bæði eru uppfyllt viðmið ráðuneytisins um sjálfsmatsaðferðir og framkvæmd sjálfsmats eru: Árskóli, Brúarskóli, Fellaskóli í Reykjavík, Giljaskóli, Grundaskóli, Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar, Húnavallaskóli, Norðlingaskóli, Safamýrarskóli, Smáraskóli, Snælandsskóli og Víkurskóli
Í 18 skólum var niðurstaðan fullnægjandi að hluta, þ.e.a.s. að aðeins var uppfyllt að hluta annað hvort viðmið ráðuneytisins um sjálfsmatsaðferðir eða framkvæmd sjálfsmats en sumir uppfylltu bæði viðmið um sjálfsmatsaðferðir og framkvæmd að hluta. Þessir skólar eru: Borgarhólsskóli, Digranesskóli, Engjaskóli, Fossvogsskóli, Garðaskóli, Glerárskóli, Grunnskóli Bláskógabyggðar, Grunnskóli Djúpavogs, Grunnskóli Reyðarfjarðar, Grunnskóli Siglufjarðar, Grunnskólinn austan Vatna, Oddeyrarskóli, Sæmundarskóli, Seyðisfjarðarskóli, Sjálandsskóli, Varmahlíðarskóli, Varmárskóli og Waldorfskólinn Sólstafir í Reykjavík.
Af þeim 59 skólum sem skoðaðir voru árið 2009 voru sjálfsmatsaðferðir í 29 skólum ófullnægjandi samkvæmt viðmiðum ráðuneytisins. Þeir eru:
Brúarásskóli, Fellaskóli í Fljótsdalshéraði, Grunnskóli Bakkafjarðar, Grunnskóli Borgarfjarðar, Grunnskóli Borgarfjarðar eystri, Grunnskóli Breiðdalshrepps, Grunnskóli Eskifjarðar, Grunnskóli Hornafjarðar, Grunnskóli Húnaþings vestra, Grunnskóli Mýrdalshrepps, Grunnskólinn á Stöðvarfirði, Grunnskólinn í Hofgarði, Grunnskólinn á Blönduósi, Grunnskólinn á Egilsstöðum og Eiðum, Hafralækjarskóli, Hallormsstaðaskóli, Höfðaskóli, Hörðuvallaskóli, Kirkjubæjarskóli, Nesskóli, Reykjahlíðarskóli, Síðuskóli, Skóli Ísaks Jónssonar, Súðavíkurskóli, Suðurhlíðarskóli, Svalbarðsskóli, Varmalandsskóli, Vopnafjarðarskóli og Waldorfskólinn Lækjarbotnum.
Niðurstöður úttektanna sem fram fóru árin 2007 og 2008 hafa þegar verið birtar með fréttatilkynningu.