Fjölgun sumarstarfa námsmanna
Sameiginleg fréttatilkynning frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Reykjavíkurborg og Nýsköpunarsjóði námsmanna
Fjölgun sumarstarfa námsmanna
Mennta- og menningarmálaráðuneyti og Reykjavíkurborg auka framlag til Nýsköpunarsjóðs
Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri hafa, fyrir hönd ráðuneytisins og Reykjavíkurborgar, ákveðið að leggja aukið fé í Nýsköpunarsjóð námsmanna. Heildarframlag þeirra nemur 120 milljónum króna, eða 90 milljónir króna frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og 30 milljónir króna frá Reykjavíkurborg. Stuðningurinn gerir yfir 400 háskólanemum mögulegt að stunda sumarvinnu við nýsköpun og rannsóknir.
Styrkir verða veittir til rannsóknar- og þróunarverkefna sem líkleg þykja til að stuðla að nýsköpun og auknum tengslum háskóla, stofnana og fyrirtækja. Umsóknir um styrki eru metnar með hliðsjón af möguleikum til hagnýtingar í atvinnulífi og nýnæmi fyrir þekkingu í viðkomandi fræðigrein. Umsóknarfrestur er til 12. apríl. Úthlutun úr sjóðnum liggur fyrir í byrjun maí.
Háskólanemar í grunn- og meistaranámi geta sótt um. Einnig sérfræðingar innan fyrirtækja, stofnana og háskóla sem óska að ráða háskólanema í sumarvinnu við rannsóknir
Síðasta sumar vildu um það bil 800 stúdentar vinna að sjálfstæðum rannsóknum.
Sjóðnum berast að jafnaði 200-400 umsóknir á ári og er styrkhlutfallið almennt u.þ.b. 40-50 prósent. Árið 2009 bárust hins vegar 566 umsóknir í sjóðinn sem var yfir 300% aukning frá árinu 2008. Aldrei áður hafa svo margir nemendur sótt um styrk til Nýsköpunarsjóðs námsmanna en að umsóknunum stóðu 777 námsmenn. Hins vegar var einungis hægt að veita styrk til 129 verkefna. Úthlutunarhlutfall sjóðsins féll niður í 22,8% árið 2009. Hér má sjá töflu yfir fjölda umsókna sem borist hafa Nýsköpunarsjóði námsmanna frá árinu 2005 og hversu mörg verkefni hafa hlotið styrk.
Sótt og veitt í Nýsköpunarsjóð námsmanna árin 2005-2009
Ár | Fjöldi umsókna | Styrkt verkefni | Hlutfall |
2005 | 272 | 141 | 51,80% |
2006 | 277 | 145 | 52,30% |
2007 | 252 | 106 | 42,10% |
2008 | 187 | 79 | 42,20% |
2009 | 566 | 129 | 22,8% |
Vettvangur fyrirtækja og stofnana til að mynda tengsl við háskólanema.
Nýsköpunarsjóður námsmanna var stofnaður að frumkvæði stúdenta árið 1992 til þess að útvega áhugasömum nemendum sumarvinnu við metnaðarfull og krefjandi rannsóknarefni. Þessu hlutverki hefur sjóðurinn getað sinnt vel í gegnum árin. Oft eru það áhugasömustu nemendurnir sem sækjast eftir vinnu við rannsóknir á sumrin. Vinna á vegum Nýsköpunarsjóðs hefur verið vettvangur fyrirtækja til að mynda tengsl við nemendur og oft hafa þau tengsl leitt til atvinnutilboða að námi loknu. Sjóðurinn er því einnig ákjósanlegur vettvangur fyrir nemendur til að kynnast framsæknustu fyrirtækjum og stofnunum landsins.
Skattaívilnun til nýsköpunarfyrirtækja
Mörg dæmi eru um að nýsköpunarverkefni hafi velt af stað viðameiri þróunarverkefnum innan fyrirtækja. Ungt fólk er oft djarft og frjótt í hugsun og fyrirtæki hafa verið tilbúin til að fjárfesta í hagkvæmnisathugun með aðstoð Nýsköpunarsjóðs námsmanna. Ný lög um skattaívilnun nýsköpunarfyrirtækja geta komið til lækkunar á launakostnaði vegna sumarstarfsmanna. Lögin veita fyrirtækjum rétt á sérstökum frádrætti frá álögðum tekjuskatti sem nemur 15 hundraðshlutum af útlögðum kostnaði vegna rannsóknar- og þróunarverkefna sinna. Allan kostnað sem til fellur innan fyrirtækisins vegna starfsmanns sem ráðinn er á styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna, má því nýta til að sækja um frádrátt frá álögðum tekjuskatti.
Getur tryggt vel yfir 400 stúdentum vinnu við rannsókna- og þróunarstarf.
Styrkupphæðin fyrir árið 2010 er 140.000 kr. á mánuði Ekki er sjálfgefið hve margra mánaða styrk nemendur hljóta en hámark miðast við 3 mánaðargreiðslur til sama nemanda. Fjöldi styrktra mánaða ræðst af umfangi og gæðum rannsóknarverkefnisins en algengt er að sjóðurinn styrki 2 mannmánuði. Með auknu fjármagni í sjóðinn verður hægt að tryggja yfir 400 háskólanemum sumarvinnu við rannsóknar- og þróunarstarf.
Nánari upplýsingar um Nýsköpunarsjóð námsmanna má finna á heimasíðu Rannís, www.rannis.is
Nánari upplýsingar veita Elías Jón Guðjónsson aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra í síma 6941480, Magnús Þór Gylfason aðstoðarmaður borgarstjóra í síma 8995552 og Guðný Hallgrímsdóttir hjá Nýsköpunarsjóði námsmanna í síma 8946112.