Hryðjuverkaárásirnar í Moskvu í dag fordæmdar
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefur sent Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, samúðarkveðjur vegna hryðjuverkaárásanna á neðanjarðarlestakerfið í Moskvu í morgun. Þar eru árásirnar jafnframt fordæmdar. Alls létust 38 rússneskir ríkisborgarar í sprengjutilræðunum. Samkvæmt upplýsingum utanríkisráðuneytisins var enginn Norðurlandabúi meðal hinna 73 sem slösuðust.
Tvær árásir voru gerðar á neðanjarðarlestakerfið í miðborg Moskvu á mesta annatíma morgunsins. Sú fyrri var gerð á Lúbjanka stöðinni í nágrenni Kremlar og hin síðari við stöðina Park Kultury sem er einnig miðsvæðis. Hálf sjötta milljón manna ferðast með neðanjarðarlestum Moskvu á hverjum virkum degi. Rússnesk yfirvöld hafa gripið til mjög hertra öryggis- og varúðarráðstafana, ekki síst í lestum og á flugvöllum. Ekki er ástæða til að vara fólk við ferðum til Rússlands en ferðafólki á leið þangað er hins vegar ráðlagt að kynna sér þær nýju reglur sem boðaðar hafa verið áður en lagt er af stað.