Hoppa yfir valmynd
29. mars 2010 Matvælaráðuneytið

Nr. 21/2010 - Þjóðhagslegt gildi hvalveiða

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, vísar til þess að sl. vor var ákveðið að fá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til þess að vinna skýrslu um þjóðhagslegt gildi hvalveiða. Nú er skýrsla þessi komin út og er hér með sem viðhengi á vef ráðuneytisins. Er það von Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hún geti orðið tilefni áframhaldandi upplýstrar umræðu um hvali við Ísland.

Úr skýrslunni

Áhrif hvalveiða

Áhrif hvalveiða á þjóðarhag eru talsvert margþættari en áhrif flestra annarra atvinnuvega:

  • Í fyrsta lagi skapa hvalveiðar eins og aðrir atvinnuvegir verðmæti og leggja þannig sitt af mörkum til þjóðarframleiðslunnar.
  • Í öðru lagi má víst telja að hvalveiðar séu grunnatvinnuvegur og hafi því þjóðhagsleg margföldunaráhrif.
  • Í þriðja lagi hafa hvalastofnar og þar með hvalveiðar, áhrif á afrakstur annarra fiskitegunda, þ.á m. annarra nytjastofna, og þar með fiskveiðar.
  • Í fjórða lagi eru ýmsir hvalastofnar umtalsverður þáttur í hvalaskoðun og þar með ferðaiðnaði.
  • Í fimmta lagi geta hvalveiðar sem slíkar haft aðdráttarafl fyrir ferðamenn og því einnig verið þáttur í ferðamannaiðnaði.
  • Í sjötta lagi eru hvalastofnar umhverfisgæði sem hafa bein áhrif á velferð margra Íslendinga.
  • Í sjöunda lagi tengjast talsvert ríkar tilfinningar hvalveiðum víða um heim. Hugsanlegt er að alþjóðleg umhverfissamtök, sem eru andvíg hvalveiðum hér á landi og hefur stundum tekist að virkja þessar tilfinningar til að skaða ýmsa íslenska hagsmuni, nái að magna upp mikla andstöðu við Ísland ef hvalveiðar eru hér stundaðar.
  • Í áttunda lagi snerta hvalveiðar almennt grundvallarrétt þjóðarinnar  til að nýta á sjálfbæran hátt auðlindir sínar. Þær hafi jafnframt menningarlegt gildi á grundvelli aldalangrar sögu sinnar.

 

Ágrip

  • Samkvæmt talningum árið 2007 voru um 20.600 langreyðar á svæðinu Austur-Grænland-Ísland. Árið 2001 töldust um 23.700 dýr á sama svæði. Stofnstærðin árið 2007 er ekki talin marktækt frábrugðin stærðinni árið 2001.
  • Árið 2007 töldust um 15.000 hrefnur á flugtalningasvæði, sem nær yfir meirihluta íslenska landgrunnsvæðinu, en þær voru um 43.600 árið 2001. Ekki reyndist unnt að telja hrefnur utan þessa svæðis árið 2007, en þær voru um 23.600 árið 2001. Vísindanefnd NAMMCO ályktaði á ársfundi 2008 og 2009 að ólíklegt væri að náttúruleg dánartíðni hefði breyst svona mikið á þessum tíma og að veiðar Íslendinga frá árinu 2003 hafi verið of litlar til að unnt sé að telja að stofninn hafi minnkað.
  • Miðað við þær forsendur að stofn langreyðar við Ísland telji um 22.100 dýr og stofn hrefnu um 53.000 dýr er talið að árlegar veiðar á 150 langreyðum og 150 hrefnum myndu með tímanum leiða til þess að stofn langreyðar næði jafnvægi við ríflega 20.000 dýr og stofn hrefnu við tæplega 51.100 dýr. Hægt væri að veiða mun meira af langreyði og hrefnu á hverju ári án þess að ganga of nærri stofnunum. Árlegar veiðar umfram 330 langreyðar og 800 hrefnur myndu hins vegar sennilega leiða til þess að stofnarnir hryndu er fram líða stundir.
  • Á árunum 1973-1985, þegar Hvalur hf. stundaði veiðar á stórhvölum í atvinnuskyni, svaraði hvalvinnsla að jafnaði til um 0,07% af vergri landsframleiðsla. Ekki liggur fyrir hvert framlag hvalveiðanna sjálfra var þá til vergrar landsframleiðslu.
  • Áætlað hefur verið að 80-90 ársverk gætu tengst beint veiðum og vinnslu  á 150 langreyðum og 150 hrefnum.
  • Lauslegt mat gefur til kynna að launagreiðslur vegna veiða og vinnslu á 150 langreyðum gætu numið um 750 milljónum kr. Ekki er hins vegar víst hver hagnaður fyrir afskriftir og vaxtagreiðslur gæti orðið af þessum veiðum og því ekki ljóst hversu mikill virðisauki myndi skapast vegna þeirra. Ólíklegt er þó að hann sé undir 750 milljónum kr. og trúlega er hann töluvert meiri. Virðisauki er hér skilgreindur sem samtala launa og launatengdra gjalda annars vegar og hagnaðar fyrir afskriftir og vaxtagreiðslur hins vegar. Ekki liggur heldur fyrir hver hagnaður gæti orðið eftir afskriftir og vaxtagreiðslur.
  • Samkvæmt upplýsingum frá hrefnuveiðimönnum, sem veiddu 69 dýr árið 2009, var hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði 0,6 milljónir kr. Launagreiðslur námu 21,7 milljónum kr. og virðisauki því 22,3 milljónum kr. Tap var á veiðunum þegar einnig er tekið tillit til afskrifta og fjármagnsliða. Hrefnuafurðir voru allar seldar innanlands. Ef gert er ráð fyrir að hægt yrði að selja hluta afurðanna erlendis má ætla að virðisauki af því að veiða 150 hrefnur gæti numið um 270 milljónum kr.
  • Jafnvel þótt gert væri ráð fyrir að enginn hagnaður myndi verða af veiðum á langreyði má því ætla að virðisauki af veiðum á 150 langreyðum og 150 hrefnum gæti orðið um 1.000 milljónir kr.
  • Um 120 manns vinna hjá fjórum stærstu hvalaskoðunarfyrirtækjunum yfir háannatímann, en 40-50 utan þess.
  • Tíu hvalaskoðunarfyrirtæki eru nú starfandi hérlendis. Gera má ráð fyrir að virðisauki hjá þremur stærstu hvalaskoðunarfyrirtækjunum gæti numið 200-300 milljónum kr. á ári. Ef gert er ráð fyrir að virðisauki annarra fyrirtæki nemi 100-200 milljónum kr. má ætla að virðisauki í greininni í heild gæti numið 300-500 milljónum kr. Samkvæmt upplýsingum frá þremur hvalaskoðunarfyrirtækjum var samanlagður hagnaður af rekstri þeirra 11,8 milljónir kr. árið 2007. Ársreikningar tveggja fyrirtækja árið 2008 gefa til kynna að þá hafi samanlagt tap þeirra numið 34,5 milljónum kr. Af reikningum stærsta hvalaskoðunarfyrirtækisins virðist aftur á móti hafa gengið mun betur árið 2009, en hagnaður þess það árið nam 91,6 milljónum kr.
  • Miðað við forsendur um afrán langreyðar á loðnu og afrán hrefnu á þorski, ýsu og loðnu væri hægt að stækka þessa þrjá nytjastofna umtalsvert með því að veiða 150 langreyðar og 150 hrefnur á hverju ári. Til lengri tíma litið gæti verið hægt að veiða um 2.200 tonnum meira af þorski á hverju ári, 4.900 tonn af ýsu og 13.800 tonn af loðnu. Núvirtur hagnaður af þessum aukna afla gæti numið um 12,1 milljarði kr. Virðisauki af þessum veiðum gæti þó orðið mun meiri.
  • Enda þótt tölur um virðisauka gefi til kynna framlag atvinnugreina til landsframleiðslu sýna þær ekki endilega þann þjóðhagslega ávinning sem hafa má af því að stunda viðkomandi atvinnugrein. Sá þjóðhagslegi ávinningur er því aðeins til staðar ef laun eru hærri þar en sama starfsfólk gæti haft fyrir önnur störf og hagnaður meiri en hægt væri að hafa af annarri starfsemi. Þetta gildir þó aðeins ef fullt atvinnustig ríkir, svo sem lengstum hefur verið á Íslandi. Þegar atvinnuástand er verra eins og nú er verður einnig að líta til þess hvort það fólk sem fær vinnu við viðkomandi starfsemi hefði ella gengið atvinnulaust.
  • Tölur um fjölda ferðamanna gefa ekki til kynna að hvalveiðar síðustu ára hafi haft marktæk áhrif á komur þeirra til landsins. Á árunum 1998-2008 fjölgaði ferðamönnum að jafnaði um 8%, en fjölgunin var örari árin 2003-2008, eða 9,4%. Íslendingar hófu hrefnuveiðar að nýju árið 2003, en hvalveiðar höfðu þá legið niðri frá árinu 1989.
  • Fjöldi þeirra ferðamanna sem farið hefur í hvalaskoðunarferðir hefur vaxið um 12% á ári frá 2000. Þá fóru um 61 þúsund í slíkar ferðir, en árið 2009 er áætlað að hvalaskoðendur hafi verið um 125 þúsund. Hvalaskoðunarfólki fjölgaði um 10 þúsund árið 2009 frá árinu á undan. Fjöldi hvalaskoðenda hefur haldist 20-25% af heildarfjölda ferðamanna frá árinu 2001. Ekki er sjá að sú ákvörðun að hefja hvalveiðar að nýju hafi dregið úr ásókn í hvalaskoðun. Þvert á móti virðist reynsla undanfarinna ára sýna að hægt er bæði að veiða hvali og skoða án þess að hvalaskoðendum þurfi að fækka.
  • Brýnt er að tryggja að hvalveiðar hafi sem allra minnst neikvæð áhrif á hvalaskoðun. Jafnframt er mikilvægt að tryggja að hvalaskoðunin hafi sem minnst neikvæð áhrif á hvalveiðar. Greinarnar verða því að læra að lifa í sátt hvor við aðra. Skýr svæðaaðgreining virðist m.a. gagnleg leið til að ná þessu marki.
  • Hvalveiðar geta sjálfar haft aðdráttarafl fyrir ferðamenn og má minna á að þúsundir manna komu áður fyrr árlega í hvalstöðina í Hvalfirði.
  • Ekki hefur verið unnt í þessari skýrslu að virða til fjár þau áhrif sem hvalveiðar kunna að hafa á virði umhverfisgæða né þau áhrif sem veiðarnar kunna að hafa á afstöðu fólks í öðrum löndum til Íslands og ímynd landsins. Þessi áhrif, sem og hugsanleg áhrif á ferðaiðnaðinn, er mikilvægt að kanna frekar.
  • Miðað við þá þætti sem skoðaðir voru í þessari skýrslu virðist þjóðhagslega hagkvæmt að halda hvalveiðum áfram. Þessar niðurstöður gæti þó þurft að endurmeta komi síðar í ljós að veiðarnar hafi veruleg neikvæð áhrif á ferðaiðnaðinn, virði umhverfisgæða fyrir Íslendinga eða ímynd þjóðarinnar út á við.

 

 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu,

29. mars 2010

 

Skýrsla Hagfræðistofnunar Þjóðhagslegt gildi hvalveiða



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta