Hoppa yfir valmynd
30. mars 2010 Dómsmálaráðuneytið

Frumvarp um fækkun lögregluumdæma úr 15 í 6

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu Rögnu Árnadóttur dómsmála- og mannréttindaráðherra þess efnis að lögregluumdæmum verði fækkað úr 15 í 6 og að yfirstjórn lögreglu verði skilin frá embættum sýslumanna frá og með 1. janúar 2011. Miðað er við að frumvarp þessa efnis verði lagt fram á Alþingi á morgun að fengnu samþykki stjórnarflokka. Markmiðið með breytingunum er m.a. að mæta lækkuðum fjárveitingum með sparnaði í yfirstjórn og draga sem minnst úr þjónustu. Um leið er komið til móts við ákveðin fagleg sjónarmið.

Nái frumvarpið fram að ganga verða fjórir nýir lögreglustjórar utan höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja, þ.e. á Vesturlandi og Vestfjörðum, á Norðurlandi, á Austurlandi og á Suðurlandi. Lögð er að auki til sérstök heimild handa dómsmálaráðherra til að fela sýslumanni daglega lögreglustjórn í umdæmi sínu, í umboði viðkomandi lögreglustjóra. Þannig verði unnt að taka tillit til aðstæðna í einstökum landshlutum. Gert er ráð fyrir að lögregluumdæmin verði nánar ákveðin með reglugerð.

Lagt er upp með að lögreglustjórarnir fjórir komi úr hópi núverandi sýslumanna. Sýslumenn í öðrum embættum verði settir yfir þau sýslumannsembætti sem þannig losna. Því mun sýslumannsembættum fækka sem nemur þessum fjórum embættum. Í þessum áfanga er ekki ráðgert að fækka sýslumannsembættum frekar heldur verður unnið áfram að tillögum þess efnis, eins og sjá má í áætlun hér að neðan.

Forsaga
Þessar tillögur eru byggðar á skýrslu starfshóps dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins um breytingar á skipulagi lögreglunnar í landinu og skýrslu Þorleifs Pálssonar, fyrrverandi sýslumanns, sem dómsmála- og mannréttindaráðherra fól að gera tillögur að breytingum á skipan sýslumannsembætta. Tillögur Þorleifs byggja í megindráttum á þeirri hugmyndafræði sem liggur að baki sóknaráætlun 20/20 og fela þær í sér að landinu verði skipt í sjö stjórnsýslusvæði; Vesturland, Vestfirði, Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland, Suðurland og Suðvestursvæðið og að jafnaði verði einn sýslumaður á hverju stjórnsýslusvæði.

Við undirbúning beggja þessara skýrslna var haft víðtækt samráð við forstöðumenn viðkomandi stofnana og fleiri sem málið varðar.

Áætlun

Á grundvelli ofangreinds verði unnið í áföngum að eftirfarandi breytingum:

  • Lögregluumdæmum verði fækkað úr 15 í 6.
  • Yfirstjórn lögreglu verði skilin frá embættum sýslumanna.
  • Hugað verði að flutningi verkefna frá ríkislögreglustjóra til hinna stækkuðu lögregluumdæma. Settur verði á fót verkefnishópur á vegum dómsmála- og mannréttindaráðherra sem verði falið að gera tillögur um hvaða verkefni skuli færð frá embætti ríkislögreglustjóra í því skyni að embættið verði fyrst og fremst miðlæg stjórnsýslustofnun. Starfshópnum verði jafnframt ætlað að gera tillögur um hvaða löggæslustofnanir skuli taka við þeim verkefnum sem embætti ríkislögreglustjóra hefur nú með höndum.
  • Lagt verði fram frumvarp veturinn 2010-2011 um breytta skipan sýslumannsembætta frá og með 1. janúar 2012. Skipan sýslumannsembætta taki mið af skiptingu landsins í stjórnsýslusvæði samkvæmt sóknaráætlun 20/20. Stækkuð sýslumannsembætti verði stjórnsýslumiðstöðvar ríkisins í héraði og unnið verði að því í samstarfi við önnur ráðuneyti að færa verkefni og þjónustu til þeirra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum