Færa ber langtímaleigusamninga í efnahagsreikning
Reikningsskila- og upplýsinganefnd hefur gefið út álit vegna færslu leigusamninga fasteigna og annarra mannvirkja í bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélaga. Nefndin telur sveitarfélögum skylt að færa slíka samninga í efnahagsreikning til lengri tíma en þriggja ára.
Nefndin gerir rækilega grein fyrir áliti sínu sem sjá má hér. Í inngangi segir nefndin meðal annars:
„Undanfarinn áratug hafa sveitarfélög hér á landi gert talsvert af svokölluðum einkaframkvæmdasamningum. Í þessum samningum felst að sérstök fyrirtæki taka að sér að byggja mannvirki og reka tiltekna starfsemi. Samningarnir hafa einkum tekið til byggingar og rekstrar á fasteignum sem sveitarfélögin hafa tekið á leigu og notað í starfsemi sinni. Einnig hafa samningar um sölu og endurleigu fasteigna og mannvirkja, verið gerðir í nokkrum mæli á liðnum árum milli sveitarfélaga og einkafyrirtækja. Sveitarfélögin hafa almennt farið með þessa samninga sem rekstrarleigusamninga, en í því felst að skuldbindingar vegna samninganna eru ekki færðar í efnahagsreikninga og leigugreiðslur eru gjaldfærðar á leigutímanum.“
Nefndin rekur þróun reikningsskilareglna og tekur fram í álitinu að samræming í reikningsskilum sveitarfélaga sé mjög nauðsynleg. Gerð er grein fyrir framangreindri niðurstöðu nefndarinnar og birtar leiðbeiningar um hvernig færa skuli leigusamninga í ársreikninga ásamt skýringum.