Framfylgd skilyrða í úrskurði um Kárahnjúka könnuð
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur falið Umhverfisstofnun að kanna hvernig staðið hefur verið við þau skilyrði sem umhverfisráðuneytið setti í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar í desember 2001.
Í úrskurði ráðuneytisins var fallist á framkvæmdina með 20 tölusettum skilyrðum sem var ætlað að draga úr umhverfisáhrifum virkjunarinnar. Framkvæmdaraðila var falið að sjá til þess að skilyrðunum yrði fullnægt. Rekstur virkjunarinnar hefur nú staðið í á þriðja ár.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segist hafa fengið ábendingar um að ekki hafi verið staðið við öll skilyrðin sem sett voru í úrskurðinum og þess vegna hafi hún falið Umhverfisstofnun að kanna það sérstaklega.