Hoppa yfir valmynd
31. mars 2010 Matvælaráðuneytið

Nr. 23/2010 - Um fyrirkomulag makrílveiða árið 2010

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur í dag undirritað reglugerð um stjórn makrílveiða íslenskra skipa árið 2010.

Tekið skal fram að ekki hefur náðst samkomulag við önnur strandríki um fyrirkomulag eða leyfilegt heildarmagn makrílveiða, og verða því leyfi til veiða á makríl einungis gefin út fyrir yfirstandandi ár. Áhersla er lögð á að ekki megi reikna með að veiðarnar í ár skapi grunn að veiðirétti í framtíðinni eða að framtíðarfyrirkomulagi veiða að öðru leyti. Á það er jafnframt bent að ekki liggur fyrir samfelld veiðireynsla í skilningi laga og að mikilvægt er fyrir þjóðarbúið að ekki sé lokað fyrir möguleika á að aflað sé enn fjölbreyttari reynslu í vinnslu og veiðum en fyrir liggur nú. Auk þess er hér vísað til þess að starfandi er vinnuhópur, skipaður af ráðherra, sem leggja á fram valkosti um endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar á næstunni. Ekki er því ráðrúm til þeirra lagabreytinga nú, sem hugsanlega kann að vera þörf á, en endurmat mun fara fram að loknu þessu veiðitímabili. Fylgst verður vandlega með veiðum og vinnslu á makríl á komandi vertíð og reynslan lögð til grundvallar reglusetningu um þær á næstu árum.

Allar veiðar á makríl í fiskveiðilandhelgi Íslands og á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) verða háðar leyfum. Ekki er verið að úthluta varanlegum heimildum til fleiri ára. Framsal verður óheimilt en tilflutningur milli skipa innan sömu útgerðar verður heimill.

Reglugerðin kveður á um, að miðað verði við að ráðherra geti stöðvað makrílveiðar, þegar náð hefur verið 130 þúsund lesta afla. Þessum viðmiðunarafla verður ráðstafað til skipa með þrennskonar hætti:

1.      112 þúsund lestum verður ráðstafað til skipa, skv. veiðileyfum, sem stunduðu makrílveiðar í flottroll eða nót á árunum 2007, 2008 og 2009 og skal skipt hlutfallslega miðað við heildarafla skipanna á árinu 2007, 2008 og til og með 11. júlí 2009 að undanskildum sérstökum heimildum til veiða í lögsögu Færeyja. Dagsetningin 11. júlí árið 2009 miðast við að þá hafi lokið löndun á afla sem fékkst áður en innkölluð voru leyfi til makrílveiða þann 8. júlí. Eftir það var einungis heimilt að veiða makríl sem meðafla með norsk-íslenskri síld og reiknast sá meðafli ekki hér með.

2.      3 þúsund lestum skal ráðstafað til skipa sem fyrirhuga veiðar á línu eða handfæri, í net eða gildrur skv. leyfi Fiskistofu.

3.      15 þúsund lestum skal ráðstafað til skipa, sem hvorki falla undir flokk 1 eða 2 en sótt hafa um leyfi til makrílveiða eigi síðar en 30. apríl. Ráðstöfun aflamagns samkvæmt þessum lið verður tengd skipastærð, þannig að skip sem eru stærri en 200 BT en minni en 550 BT fá 85% af því magni sem 550 BT skip eða stærri fá, og skip sem eru 200 BT eða minni fá 70% af sömu viðmiðun. Magnið í lestum mun svo ráðast af fjölda umsókna í hverjum stærðarflokki, en ekkert skip fær þó meira en 1000 lestir.

Með þessum reglum er tekið tillit til alhliða hagsmuna og stuðlað að sem mestri og fjölbreyttastri  verðmætasköpun og atvinnu fyrir þjóðarbúið í heild.

Íslendingar hafa enn litla reynslu af makrílveiðum og vinnslu. Því er sérstök ástæða til að skapa svigrúm fyrir nýjar veiðiaðferðir, sem líklegar eru til að skapa grundvöll fyrir fjölbreyttri vinnslu á verðmætum afurðum og auka atvinnu í sjávarbyggðum. Ennfremur þykir eðlilegt, vegna þess hve stutt er síðan farið var að veiða makríl hér í teljandi magni, að veita fleirum aðgang að veiðunum en þeim sem veitt hafa síðustu árin. Reglugerðin gerir þó  ráð fyrir endurúthlutunum á vannýttum aflaheimildum þegar líður á veiðitímabilið til að unnt verði að veiða það magn sem heimilað er.

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, leggur mikla áherslu á að auka þann hluta makrílaflans, sem unninn er til manneldis, enda er það í samræmi við stefnu stjórnvalda og alþjóðleg sjónarmið um sjálfbærni. Hann hyggst því einnig nýta nýja heimild í lögum um stjórn fiskveiða til að kveða á um vinnsluskyldu á tilteknu hlutfalli makrílaflans og gefa innan skamms út reglugerð þar að lútandi, þar sem jafnframt verði sett kvöð á skip um að færa í land allan afskurð sem fellur til við vinnslu makrílsins um borð í fullvinnsluskipum.

 

 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu,

31. mars 2010

Reglugerð um stjórn makrílveiða íslenskra skipa árið 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta