Umhverfisráðherra kynnir sér hálendisvaktina
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra heimsótti starfsfólk Slysavarnarfélagsins Landsbjargar í höfuðstöðvar félagsins í dag til að fræðast um verkefnið Safetravel, sem felst meðal annars í hálendisvakt björgunarsveita. Landsbjörg hefur haldið utan um verkefnið en það er samstarfsverkefni félaga, fyrirtækja og stofnana sem koma að ferðamennsku á hálendinu.
Hálendisvaktin gengur út á virkt eftirlit björgunarsveita á hálendinu og fræðslu fyrir ferðamenn. Meðal þess sem hálendisvaktin leggur áherslu á er að vakta akstur utan vega og fræða erlenda ferðamenn um bann við slíkum akstri. Landsbjörg stendur hálendisvaktina frá 25. júní til 8. ágúst og í fyrra bárust 930 beiðnir um aðstoð á þessu tímabili.