Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2010 Forsætisráðuneytið

Skýrsla um leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins

Nefnd um fyrirkomulag leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins hefur lokið störfum. Verður skýrsla nefndarinnar kynnt á fundi í Þjóðmenningarhúsinu á morgun, fimmtudaginn 8. apríl, kl. 10.30. Fundurinn er ætlaður fréttamönnum og öðrum sem áhuga hafa á málefninu.

Þann 29. maí 2008 samþykkti Alþingi lög nr. 58/2008, um breytingu á ýmsum lögum á auðlinda- og orkusviði, þar sem að mestu var bannað að selja vatnsréttindi í eigu opinberra aðila. Í ákvæði III til bráðabirgða er þar kveðið á um að forsætisráðherra skuli skipa nefnd til að fjalla um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins. Nefndin skuli í störfum sínum fjalla um leigugjald, leigutíma, endurnýjun leigusamninga og önnur atriði er lúta að réttindum og skyldum aðila. Þá skuli nefndin meta hverra aðgerða sé þörf til að tryggja sjálfbæra og hagkvæma nýtingu auðlindanna.

Í nefndinni, sem forsætisráðherra skipaði í ársbyrjun 2009, áttu sæti Karl Axelsson, hrl. og dósent, formaður; Elísabet Sigurðardóttir, lögfræðingur úr forsætisráðuneyti, Friðrik Már Baldursson, prófessor, Þórunn Pálsdóttir, verkfræðingur, Hafsteinn S. Hafsteinsson, lögfræðingur úr fjármálaráðuneyti, Lúðvík Bergvinsson, hdl., tilnefndur af iðnaðarráðherra, og Guðlaug Jónsdóttir, lögfræðingur úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, en Arnór Snæbjörnsson, lögfræðingur úr sama ráðuneyti, tók síðar hennar sæti í nefndinni.


Reykjavík 7. apríl 2010

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta