Margvísleg verkefni á lokaspretti við Landeyjahöfn
Nærri 70 manns eru nú að margvíslegum störfum við Landeyjahöfn. Dýpkun er nýlega hafin, bygging brimvarnargarða stendur enn yfir og verið er að reisa farþegaaðstöðu.
Gert er ráð fyrir að höfnin verði tilbúin 1. júlí og að siglingar Herjólfs milli lands og Eyja geti þá hafist.
Meðfylgjandi loftmynd var tekin um páskahelgina af Arnóri Páli Valdimarssyni hjá Flugfélagi Vestmannaeyja og á henni sést vel umfang framkvæmda á svæðinu og hvernig mannvirkið tekur smám saman á sig lokamynd. Dýpkunarskip Björgunar, Perla, er í hafnarmynninu en alls á að losa um 190 þúsund rúmmetra efnis úr höfninni.