Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ársfundi Umhverfisstofnunar 2010

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp á ársfundi Umhverfisstofnunar sem haldinn var á Grand Hóteli 9. apríl 2010.

Fundarstjóri, starfsfólk Umhverfisstofnunar, ágætu ársfundargestir.

Það er mér gleðiefni að fá tækifæri til að taka þátt í fyrsta ársfundi Umhverfisstofnunar sem er vonandi bara sá fyrsti af mörgum sem ég á eftir að sækja sem umhverfisráðherra.

Þegar ég tók við starfi umhverfisráðherra fyrir að verða ári síðan þá heimsótti ég allar stofnanir umhverfisráðuneytisins og var Umhverfisstofnun sú fyrsta. Er skemmst frá því að segja að ég fékk góðar móttökur og ég skynjaði strax það jákvæða andrúmsloft sem ríkir hjá stofnuninni.

Ríkur mannauður er eitthvað sem allar stofnanir og fyrirtæki stefna að og þurfa á að halda, ekki síst á þeim tímum sem við lifum núna. Það er mín upplifun að vel sé hlúð að þeim mannauði sem býr í starfsmönnum Umhverfisstofnunar og mikið lagt upp úr því að stjórnendur og starfsmenn taki við nýjum áskorunum og nýti sérþekkingu sína til hins ýtrasta í starfi.

Mig langar í þessu sambandi sérstaklega að nefna, án þess að á nokkurn sé hallað, hversu vel hefur tekist til við verkefnið um Svansmerkið á síðustu misserum. Það flug sem Svanurinn hefur tekið undir stjórn Umhverfisstofnunar er aðdáunarvert og sérstakt gleðiefni þegar horft er til þess umhverfis sem ríkir m.a. í ríkisfjármálum og þeim þrönga stakk sem ríkisstofnunum eru búnar. Það skiptir miklu máli fyrir okkur öll að sjá nýjan vaxtarbrodd eins og Svansmerkið blómstra og er Svanurinn táknrænn fyrir það oddaflug sem við öll, sem störfum að umhverfis- og náttúruverndarmálum, þurfum að þreyta til að ná fram markmiðum í þágu umhverfis og náttúru.

En það fer ekki á milli mála að Norræna umhverfismerkið, Svanurinn, hækkar nú flugið hér á landi. Íslensk svansleyfi eru orðin sjö talsins, tólf umsóknir eru í vinnslu hjá Umhverfisstofnun og úrval Svansmerktra vara er til boða í verslunum. Umhverfisstofnun og fyrirtæki í landinu hafa lagt sitt að mörkum til að koma Svaninum á markvisst flug hér á landi. En ekki síður neytendur. Ég afhenti fyrr í vikunni Farfuglaheimilunum í Laugardal og við Vesturgötu Svansvottun til staðfestingar á góðum árangri í umhverfismálum.

„Það er krafa frá ferðamönnum að geta valið þjónustu frá fyrirtækjum sem gera betur í umhverfismálum. Farfuglaheimilin í Reykjavík vinna af heilum hug að því að mæta þeim kröfum og eftir dvöl þar eru gestirnir betur upplýstir um leiðir til að draga úr áhrifum á umhverfið. Gildi þjálfunar og símenntunar fyrir starfsfólki er einnig verðmætur þáttur í umhverfisstarfinu. Um leið er þetta rekstrarlega hagkvæmt en fyrst og fremst siðferðislega rétt“ sagði Sigríður Ólafsdóttir, rekstrarstjóri Farfuglaheimilanna í Reykjavík. Í ríkisútvarpinu var haft eftir starfsmanni Farfulgaheimilanna að maður stendur ekki endalaust fyrir framan gesti sem spyrja um sorpflokkun og önnur umhverfismál á gististaðnum án þess að bregðast við og gera eitthvað í umhverfismálum. Neytendur vita hvað þeir vilja og halda stjórnvöldum og atvinnulífinu við efnið.

Innleiðing á Svansmerkinu er eitt af mörgum verkefnum á sviði umhverfis- og náttúruverndarmála sem brýnt er að vinna að. En verkefnin eru fleiri og vil ég hér nefna dæmi um nokkur þeirra.

Ég stefni að því að leggja fram frumvarp til laga um stjórn vatnamála nú fljótlega þegar þing kemur saman eftir páskaleyfi. Um er að ræða innleiðingu á svokallaðri vatnatilskipun sem mörg ykkar hafa heyrt minnst á. Markmið frumvarpsins er að kveða á um verndun vatns, hindra það að vatnsgæði rýrni og bæta ástand vistkerfa vatna og votlendis og vistgerða sem beint eru háð vatni til að tryggja að vötn njóti heildstæðrar verndar. Löggjöfinni er ætlað að tryggja sjálfbæra nýtingu vatns sem byggir á langtímavernd vatnsauðlindarinnar. Markmiðið endurspeglar mikilvægi vatnsauðlindarinnar og nauðsyn þess að vel sé gengið um hana.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka starfsfólki Umhverfisstofnunar fyrir samstarfið og það veigamikla hlutverk sem stofnunin hefur gengt við framkvæmd þessa verkefnis.

Vatnið og súrefni eru mikilvægustu auðlindir okkar manna og grundvöllur fyrir öllu lífi. Við Íslendingar erum gæfusöm þar sem við eigum gnótt af hreinu vatni. Mikilvægt er að umgengni okkar við þessa dýrmætu auðlind sé byggð á virðingu, þakklæti og auðmýkt. Við þurfum líka að leiða hugann að því hvernig við Íslendingar getum nýtt auðlindina og verndað til framtíðar í þágu og til hjálpar öðrum þjóðum sem búa ekki eins vel og við.

Þá stefni ég að því að leggja fram til kynningar frumvarp til laga um umhverfisábyrgð á Alþingi í vor. Frumvarpið er sett fram til innleiðingar á tilskipun um umhverfisábyrgð í tengslum við varnir gegn umhverfistjónum og úrbætur vegna þess sem tekin var inn í EES samninginn fyrir rúmu ári síðan. Markmið tilskipunarinnar er að setja ramma um ábyrgð vegna umhverfistjóns. Tilskipunin byggir á meginreglu umhverfisréttar um að mengunarvaldur skuli greiða (polluter pays principle). Markmið væntanlegra laga um umhverfisábyrgð verður að tryggja að sá sem ábyrgð ber á umhverfistjóni eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni komi í veg fyrir tjón og bæti úr því ef tjón hefur orðið og beri kostnað af ráðstöfunum sem af því leiða.

Loftslagsmál eru eitt stærsta og flóknasta viðfangsefni mannkynsins. Hornsteinn aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er gott og áreiðanlegt bókhald yfir losunina og bindingu koldíoxíðs með skógrækt og landgræðslu. Umhverfisstofnun hefur annast þetta bókhald frá upphafi og hefur það komið vel út úr ítarlegum úttektum skrifstofu Loftslagssamningsins. Nú er unnið að því að Ísland innleiði reglur Evrópusambandsins um viðskipti með losunarheimildir, sem eru mjög viðamiklar. Það er einnig verkefni Umhverfisstofnunar að sjá um innleiðingu á þessum reglum. Þá hefur Umhverfisstofnun lagt til starfsmann verkefnisstjórnar um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og sinnt fleiri verkefnum þessu tengt. Ég tel ástæðu til þess að þakka Umhverfisstofnun fyrir gott starf í loftslagsmálum til þessa og tel einsýnt að þessi þáttur muni fara enn vaxandi í starfsemi stofnunarinnar á komandi árum og verða margþættari og sýnilegri. Þótt óvissa sé um gang alþjóðlegra samningaviðræðna um loftslagsmál geta aðgerðir ekki beðið og við Íslendingar getum verið í fararbroddi þar á ýmsum sviðum. Ég vil auka umræðu og efla aðgerðir í loftslagsmálum og vænti góðs samstarf við Umhverfisstofnun í því verkefni.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að náttúruvernd verði hafin til vegs og staða hennar innan stjórnarráðsins styrkt til muna. Umhverfisráðuneytið vinnur nú að mörgum verkefnum á sviði náttúruverndarmála sem unnin eru í góðu samstarfi við m.a. Umhverfisstofnun. Má þar helst nefna heildarendurskoðun á náttúruverndarlögum en gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki í lok þessa árs.

Náttúruverndaráætlun og framkvæmd hennar er annað mikilvægt samstarfsverkefni milli Umhverfisstofnunar og ráðuneytisins auk friðlýsingarverkefna sem ég hef lagt sérstaklega mikla áherslu á sbr. stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Þá má nefna friðlýsingu Gjástykkis sem ég hef nýlega falið Umhverfisstofnun að hefja undirbúning að.

Akstur utan vega er brýnt verkefni sem unnið er að hjá Umhverfisstofnun og ráðuneytinu. Frá því í haust hef ég sjálf setið í vinnuhópi með forstjóra Umhverfisstofnunar og starfsmönnum ráðuneytisins sem vinnur að því að leggja fram framkvæmdaáætlun um aðgerðir gegn akstri utan vega. Er stefnt að því að kynna tillögur hópsins um miðjan þennan mánuð.

Árið í ár er ár líffræðilegrar fjölbreytni. Í upphafi árs fól ég forstjórum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landgræðslu Íslands það verkefni að vinna tillögur um aðgerðir til að fjarlægja lúpínu á þeim svæðum þar sem hún er talin óæskileg og ógn við annað umhverfi. Þeir hafa nú skilað mér tillögum um aðgerðir sem kynntar voru á blaðamannafundi í umhverfisráðuneytinu í morgun. Er þessi vinna aðeins upphaf að þeim aðgerðum sem grípa þarf til til að koma í veg fyrir útbreiðslu ágengra tegunda.

Þá er unnið að lokafrágangi á reglugerð um kjölfestuvatn sem taka á gildi 1. júlí nk. Markmið reglugerðarinnar er að koma í veg fyrir að framandi lífverur og meinvaldar, svo sem veirur og sýklar, berist með kjölfestuvatni til hafsvæða og stranda umhverfis Ísland með því að takmarka losun þess.

Á lokastigi er vinna við reglugerð um brennisteinsvetni sem til er komin vegna aukinnar nýtingu jarðhita á Íslandi síðustu ár sem hefur aukið losun brennisteinsvetnis út í andrúmsloftið. Reglugerðinni er ætlað að taka á umhverfismörkum og áhrif þessarar mengunar á fólk.

Þessi upptalning er aðeins hluti af þeim fjölmörgu verkefnum sem verið er að vinna að og ekki gefst tími til að fjalla um hér. Vil ég nota tækifærið og þakka ykkur öllum sem komið hafa að þessari vinnu með ráðuneytinu.

Góðir gestir

Í upphafi máls míns kom ég inn á mikilvægi mannauðar og það jákvæða andrúmsloft sem ríkir á Umhverfisstofnun. Það fer ekki á milli mála að starfsmenn stofnunarinnar eru óhræddir við að takast á við metnaðarfull verkefni sem endurspeglast m.a. í árs- og verkefnaáætlun stofnunarinnar sem ég staðfesti í gær. Ég hvet ykkur að halda ótrauð áfram í ykkar starfi og veit að samstarf okkar verður jafn ánægjulegt hér eftir sem hingað til.

Góðar stundir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta