Reglugerð um störf eftirlitsnefndar samkvæmt lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.
Ráðherra hefur undirritað og sent til birtingar reglugerð um störf eftirlitsnefndar samkvæmt lögum nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins í samráði við hagsmunaðila.
Í reglugerðinni er hlutverk eftirlitsnefndarinnar skýrt nánar auk þess sem sérstakt ákvæði er að finna um eftirlit með endurskipulagningu fyrirtækja á vegum fjármálafyrirtækja. Samkvæmt því ákvæði skulu fjármálafyrirtæki gera eftirlitsnefndinni grein fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu allra fyrirtækja þar sem eftirgjöf skulda nemur hærri fjárhæð en 1 milljarði króna. Með eftirgjöf skulda er átt við beina lækkun höfuðstóls skulda eða lækkun höfuðstóls innan tiltekins tímafrests, breytingu skuldar í víkjandi lán eða breytingu víkjandi láns í hlutafé eða annað eigið fé.
Þá er í reglugerðinni gerð ráð fyrir að eftirlitsnefndin birti ársfjórðungslega greinargerð með tölfræðilegum upplýsingum um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja á vegum fjármálafyrirtækja, þar sem m.a. skal koma fram fjöldi fyrirtækja sem sætt hafa fjárhagslegri endurskipulagningu, hvers konar fyrirtæki eigi í hlut og á hvaða sviðum atvinnulífsins. Þá skal veita upplýsingar um heildarfjárhæð eftirgjafar skuldar í hverjum flokki.
Nánari upplýsingar veitir aðstoðarmaður ráðherra Benedikt Stefánsson á netfanginu benedikt.stefansson [hjá] evr.is eða í síma 545 8800.