Skýrsla um mat á möguleikum til frekari samþættingar við framkvæmd verkefna stofnana ráðuneytisins
Á síðasta ári fól sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið ParX viðskiptaráðgjöf IBM að meta möguleika til frekari samþættingar við framkvæmd verkefna stofnana ráðuneytisins. Þær stofnanir sem komu til skoðunar eru Fiskistofa, Hafrannsóknastofnunin, Veiðimálastofnun, Matvælastofnun og svo Matís ohf.
ParX skilaði skýrslu til ráðuneytisins í janúar s.l. Í framhaldi af því ákvað sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að teknir yrðu til ítarlegri skoðunar möguleikar á samvinnu og samþættingu verkefna Hafrannsóknastofnunarinnar og Veiðimálastofnunar. Jafnframt verður metið hvort samnýta megi húsnæði stofnananna að hluta.
Að mati ráðuneytisins felast ýmsir möguleikar í aukinni samvinnu þessara tveggja stofnana sem leitt geta til meiri sveigjanleika í verkefnavali og samlegðaráhrifa í rekstri. Forstjórum stofnananna ásamt starfsmanni ráðuneytisins og ráðgjafa hefur verið falið að gera ítarlega fýsileikakönnun á þessum möguleikum og munu þeir skila ráðherra skýrslu fyrir lok maímánaðar n.k.
Þá hefur ráðherra jafnframt ákveðið að framkvæmd og skipulag fiskeldismála verði tekin til sérstakrar skoðunar ásamt fleiri hagræðingarmöguleikum sem bent er á í skýrslunni.