Þriggja ára samstarfssamningur utanríkisráðuneytis og Félags SÞ á Íslandi
Utanríkisráðuneytið og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hafa gert með sér samstarfssamning til þriggja ára. Samningurinn byggir á áralöngu samstarfi ráðuneytisins og félagsins, sem og fyrri samningi sem féll úr gildi í árslok 2009.
Grundvöllur samstarfsins er sáttmáli Sameinuðu þjóðanna, með sérstaka áherslu á þúsaldaryfirlýsinguna sem samþykkt var á Allsherjarþingi SÞ árið 2000. Í henni eru gefin fyrirheit um að ríki heims muni berjast fyrir friði og öryggi og ráðast sameiginlega gegn fátækt.
Markmið samningsins er m.a. að efla kynningu á hlutverki og starfsemi Sameinuðu þjóðanna, stuðla að umfjöllun um alþjóðamál með hugsjónir og markmið SÞ að leiðarljósi og fjalla um þátttöku Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
Utanríkisráðuneytið leggur fram að lágmarki 3,6 m.kr. árlega til félagsins á tímabilinu 2010-2012.