Ávarp umhverfisráðherra á Degi húnvetnskrar náttúru
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra ávarpaði gesti á málþingi um náttúru Húnavatnssýslna sem haldið var að Gauksmýri 10. apríl 2010.
Góðir Húnvetningar og aðrir gestir,
Náttúra Íslands er merkileg og stórbrotin - og fegurð hennar og sérstaða er ein okkar helsta auðlind. Við þurfum að vernda hana af kostgæfni, samhliða því sem við nýtum orkulindir landsins, gróður til beitar og lífríki til lands og sjávar. Stórbrotið sjónarspil elds og ísa á Fimmvörðuhálsi vekur nú athygli víða um heim og ýtir undir áhuga ferðamanna að sækja þetta land heim, þar sem hægt er að komast í tæri við frumkrafta náttúrunnar. Það hefði kannski komið einhverjum spánskt fyrir sjónir í fyrri tíð að eldgos teldust meðal jákvæðustu tíðinda á Íslandi, en við getum þakkað góðum vísindamönnum og almannavörnum að við getum brugðist hratt við ógn af völdum eldsumbrota – og kannski almættinu líka að gosið kom upp þar sem einna minnst hætta stafar af því en sjónarspilið er hvað glæsilegast.
Húnaþing er að mestu utan hins eldvirka hluta Íslands, en hér er enginn hörgull á merkilegum náttúrufyrirbærum.
Hér er tvennt af því þrennu sem fyrrum var talið óteljandi á Íslandi – hólarnir í Vatnsdal og vötnin á Arnarvatnsheiði. Eitt merkasta háhitasvæði landsins, Hveravellir, er í húnvetnskri lögsögu. Strandlengjan skartar einu þekktasta kennileiti Íslands, Hvítserki, sem birtist í ótal bæklingum og öðru kynningarefni um Ísland. Önnur fágæt náttúrusmíð er í stuðlaberginu norður í Kálfshamarsvík. Hér eru glæsileg fjöll og fossar og ár og gljúfur, sum vel þekkt en önnur síður. Það er vísbending um ríkidæmi íslenskrar náttúru að mörg merkileg náttúrufyrirbæri eru enn lítt þekkt meðal þorra fólks hér á landi. Það er líka vísbending um mikilvægi þess að okkar fámenna þjóð leggi sig fram um að skrá vel náttúru landsins og gæta vel að öllum hennar auðævum, kunnum sem lítt kunnum, áður en við leggjum í framkvæmdir. Slíkt er ekki steinn í götu framfara, heldur nauðsynleg forsjá, svo við glötum ekki verðmætum í viðleitni okkar við að skapa önnur.
Nú er ár líffræðilegrar fjölbreytni, en lífríkið er sá þáttur náttúrunnar sem okkur ber einna ríkust skylda að vernda. Lífríkið hér um slóðir er ríkulegt, allt frá heiðunum með sínum fiskivötnum og gróðurvinjum – sem eru eitt helsta vígi heiðagæsarinnar í heiminum – til hafsins. Það er vel við hæfi að Selasetur Íslands sé hér staðsett, því óvíða gefst jafnt gott tækifæri til að sjá seli og hér við Húnaflóa. Spendýrafána Íslands er ákaflega fábreytt á landi, en hún er ríkuleg í sjó. Hvalaskoðun malar túristagull víða um land, sem fáir hefðu giskað á fyrir 20 árum eða svo, en selaskoðun er ekki síður ævintýri fyrir íslensk sem erlend borgarbörn, sem komast sjaldan í færi við villtar skepnur. Fuglaskoðun er tómstundaiðja sem milljónir manna stunda víða um heim og hvetur marga til ferðalaga, en möguleikum á því sviði hefur verið lítið sinnt á Íslandi, með nokkrum undantekningum. Það er því vel til fundið að fjalla um fuglaskoðun hér á þessum degi.
Það er svo auðvitað ekki hægt að láta einkennisdýrs Húnaþings ógetið, hvítabjarnarins, en hvítabjarnaskoðun er auðvitað ekki hættulaus iðja og snúið mál hvernig best sé að taka á móti slíkum gestum. Þar rekast á öryggis- og verndunarsjónarmið og alltaf þörf á skjótum og erfiðum ákvörðunum þegar sést til bjarnar. (Skagabjörninn svokallaði var stoppaður upp og er geymdur á Blönduósi og ég heyri að margir hafa fyrir satt að “þriðji björninn” sé dysjaður hér uppi á Skagaheiði og að það sé ríkisleyndarmál. Eðli málsins samkvæmt get ég lítið tjáð mig um það.)
Ég ætla ekki að ræða hér frekar um hina margþættu náttúru Húnavatnssýslna, enda er það verkefni fjölmargra ágætra fyrirlesara hér í dag, sem eru sérfróðir um þau efni. Ég vil hins vegar fagna þessu framtaki Náttúrufræðistofu Norðurlands Vestra og Selaseturs Íslands og annarra sem að þessum fræðsludegi standa, sem ég tel til mikillar fyrirmyndar. Við búum í auðugu landi hvað náttúrufar og náttúruminjar varðar og við þurfum að þekkja þessa auðlegð og kunna að meta hana. Hún er hluti af vitund okkar og þjóðarstolti og hún er undirstaða einnar mikilvægustu atvinnugreinar Íslendinga, ferðaþjónustunnar – sem er í miklum vexti nú og auðveldar okkur að komast úr þeim djúpa efnahagslega öldudal sem bankahrunið skapaði.
Margir hafa miklar væntingar til ferðaþjónustu og það er ekki vafi á því að þar eru mikil sóknarfæri, því víðerni og lítt snortin náttúra eru orðin sjaldgæf fyrirbæri og íbúar þéttbýlla og iðnvæddra landa sækjast í vaxandi mæli eftir slíkum munaði. Slíkt er af hinu góða, en uppbygging ferðaþjónustu verður að haldast í hendur við öfluga náttúruvernd. Ef náttúruvernd situr á hakanum er ekki einungis hætta á skemmdum vegna ágangs, heldur skaddast jafnframt ímynd Íslands sem eftirsóknarverðrar náttúruparadísar. Náttúruvernd er undirstaða sjálfbærrar ferðamennsku og reyndar sjálfbærrar þróunar atvinnulífs og þjóðfélagsins yfirleitt.
Það er umhugsunarefni að framkvæmd náttúruverndaráætlunar hefur gengið hægt og víða er tortryggni við friðlýsingar að finna. Ég held að þar sé nauðsynlegt að skoða hvort og hvernig megi bæta upplýsingagjöf og samráð við heimamenn á hverjum stað. Það er hins vegar fagnaðarefni að oft kemur frumkvæði að friðlýsingum frá sveitarstjórnum, enda er það öllum í hag að spilla ekki náttúrugersemum og tryggja að vernd og nýting náttúrunnar fari sem best saman og árekstraminnst.
Þið sem búið hér í Húnaþingi búið yfir miklum auð í ykkar náttúru og við Íslendingar auðvitað allir, því hér er rík hefð fyrir almannarétti og frjálsri för göngumanna um okkar fagra land. Ég veit að þessum degi verður vel varið hjá þeim sem hér eru og ég vil ítreka þakkir mínar til aðstandenda þessa viðburðar, fyrirlesara og gesta.
Takk fyrir.