Dreifibréf til grunnskóla vegna danskennslu
Að gefnu tilefni vill mennta- og menningarmálaráðuneytið taka fram að samkvæmt lögum nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla á að auglýsa allar lausar kennslustöður í grunnskólum þ.á m. danskennarastöður. Einhvers misskilnings virðist hafa gætt þess efnis að ráðuneytið hafi heimilað að danskennarar gætu starfað án undanþágu í grunnskólum.
Sækja þarf um undanþágur til undanþágunefndar grunnskóla fyrir þá starfsmenn skóla sem sinna danskennslu og hafa ekki leyfisbréf sem grunnskólakennarar, eins og gildir um allar aðrar námsgreinar í grunnskóla. Varðandi auglýsingar er ástæða til að minna á að auglýsa þarf allar lausar stöður a.m.k. tvisvar sinnum, nema um sé að ræða einstakling sem er í námi til kennsluréttinda, þá nægir að auglýsa einu sinni. Samkvæmt áðurgreindum lögum er skólastjóra heimilt að ráða sérfræðing tímabundið að hámarki eitt skólaár í senn til þess að kenna sérgrein sína, enda sé aðeins um að ræða kennslu sem nemur 240 mín. eða minna á viku. Skólastjóra er ekki skylt samkvæmt lögunum að bera slíkt undir undanþágunefnd grunnskóla. Engu að síður þarf að auglýsa slíkar lausar stöður.
Einnig er ástæða til að taka fram að með öllu er óheimilt að setja starfsmenn sem ekki hafa leyfisbréf til kennslu í grunnskólum og sinna eiga kennslustarfi á launaskrá fyrr en undanþáguheimild frá undanþágunefnd grunnskóla liggur fyrir.
Í ljósi þess hversu langt er liðið á skólaárið aðhefst ráðuneytið ekki frekar hvað varðar þá danskennara sem starfandi eru án leyfisbréfs og undanþágu á yfirstandandi skólaári, en krefst þess að ráðningarmálum grunnskóla í tilvikum danskennara sem annarra kennara sé hagað í samræmi við þar til gerð lög og að unnin verði bót á þar sem við á fyrir næsta skólaár.
Fyrir hönd ráðherra
Arnór Guðmundsson
Guðni Olgeirsson